GA 90 ára - afmælisboð 6.júlí

Golfklúbbur Akureyrar verður 90 ára þann 19. ágúst næstkomandi og ætlar í tilefni af því stórafmæli að bjóða í hátíðarkaffi í golfskálanum að Jaðri sunnudaginn 6. júlí, næstkomandi kl. 14:00. Þar verður nokkrum félögum veittar orður fyrir framúrskarandi framtaksemi og dugnað í þágu klúbbsins.

Golfklúbbur Akureyrar hefur vaxið mikið frá stofnun en fyrst um sinn fékk klúbburinn aðstöðu á Gleráreyrum fyrir 6 holu golfvöll og var fyrsta meistaramót GA haldið árið 1938 en þar fór Gunnar G. Schram með sigur af hólmi, Gunnar var fyrsti formaður klúbbsins og frumkvöðull að stofnun hans. Á 10 ára afmæli klúbbsins fékk hann aðstöðu við Þórunnarstræti þar sem gerður var 9 holu golfvöllur og var völlurinn staðsettur þar allt til ársins 1970 þegar GA fékk aðstöðu að Jaðri og var byggður 9 holu golfvöllur þar. Árið 1981 var völlurinn síðan stækkaður í 18 holur og hefur hann vaxið mikið frá þeim tíma. Í vetur og vor var síðan ný inniaðstaða og golfbúð opnuð og má með sanni segja að aðstaða til golfiðkunar hjá Golfklúbbi Akureyrar sé ein sú besta á landinu. Við hjá GA erum gríðarlega stolt af því flotta starfi sem hefur verið unnið hjá klúbbnum allt frá stofnun hans og hlökkum til að fagna þessum tímamótum með okkar félagsfólki. 

Við hlökkum tl að sjá ykkur sem flest til að fagna þessum degi með okkur.