Fyrsti dagur Arctic Open í sögubækurnar

Nú er hafið hjá okkur hið árlega Arctic Open. Þessi hátíð hófst á miðvikudag þegar mótið var sett með opnunarhátið og drive keppni. Í gær var fyrsti dagur mótsins, og var metfjöldi fólks sem tók þátt þetta árið. Yfir 250 manns spiluðu frá hádegi og langt fram á nóttu. Þrátt fyrir miklar viðvaranir og vondar spár sérfræðinga var frábært veður hjá okkur þar til seint um kvöldið þegar það tók að hvessa aðeins.

Mikið var um fín skor í blíðviðrinu, en þau Eva Hlín, Einrún Ósk og Þorvaldur Makan spiluðu öll á 41 punkti á fyrri deginum sem verður að teljast glæsilegt.

Efstir í höggleik voru þeir Ingi Steinar og Kristinn Gústaf á 72 höggum og munu þeir berjast um höggleiks titilinn ásamt fleiri flottum kylfingum.

Mikil gleði ríkti á fyrsta deginum og hlökkum við til að senda fólk út á völl í dag og sjá alla enn ferskari í lokahófinu á laugardagskvöld.