Fyrsta degi Meistaramóts GA lokið

Lárus leiðir meistaraflokk karla
Lárus leiðir meistaraflokk karla

Í gær, miðvikudag lauk fyrsta hring á Meistaramóti GA 2020. Flott þátttaka er í mótinu í ár þar sem 125 keppendur eru skráðir til leiks, veðrið var nokkurnvegin til friðs fyrsta daginn en það blés létt úr norðri frameftir degi og fór að lægja þegar leið á. Nú eru fyrstu kylfingar að fara út á degi 2, allir kylfingar vel stefndir og staðráðnir í að gera betur en í gær.

Í dag spila öldungarnir 65+ sinn næst síðasta hring þar sem að þau spila einungis 3 hringi og er því mikilvægt fyrir þá að koma sér í góða stöðu fyrir lokahringinn. Eftir fyrsta hring er það Guðmundur E Lárusson sem leiðir flokk 65+ karla en hann er 3 höggum á undan næsta manni. Jakobína Reynisdóttir leiðir flokk 65+ kvenna en hún á 5 högg á næstu konu.

Í meistaraflokki karla er mikil spenna en eftir fyrsta dag er það Lárus Ingi sem leiðir, hann spilaði á 71 höggi í gær sem er par vallarins. Eyþór Hrafnar fylgir honum fast á hæla en hann er bara 1 höggi á eftir Lárusi. Í meistaraflokki kvenna leiðir Andrea Ýr en hún spilaði á 77 höggum í gær, Stefanía er ekki langt undan en er þó 6 höggum á eftir Andreu.