Fréttir úr starfi GA 2. desember

Eins og flestir vita opnaði Jaðarsvöllur aftur 17. nóvember eftir um mánaðarlokun. Veðrið hefur verið með besta móti nú á haustmánuðum og erum við ánægð með að geta boðið félagsmönnum okkar upp á að spila holur 10-18 á meðan það er bjart og veður gott. Fjölmargir hafa nýtt sér þetta og tekið góðan göngutúr með kylfurnar og hefur það reynst vel. Við viljum áfram minna félagsmenn okkar á að ganga vel um völlinn þar sem hann er blautur og viðkvæmur á þessum árstíma.

Vallarstarfsmenn okkar hafa ekki setið auðum höndum undanfarna mánuði og hefur gríðarmikil vinna verið unnin af þeirra hálfu. Lagt hefur verið rafmagn út á seinni níu holurnar til að hægt sé að hlaða slátturóbota sem munu fjölga á næstu árum og verða nokkrir slíkir komnir í gagnið á röffsvæðum seinni níu fyrir næsta sumar. Dren vinna hefur haldið áfram og hefur sú vinna verið á 3. og 15. í haust. Aukið dren á 18. braut og þá sérstaklega úr glompum ásamt því að setja vökvunarkerfi í forgreen flatarinnar. Nýr rauður teigur á 11. ásamt nýjum fremsta teig og verða þeir þökulagðir á vordögum. 

Einnig er vinna við að leggja snjóbræðslu í stéttina fyrir utan inngang á neðri hæð golfskálans langt komin.

Þá hafa okkar bestu sjálfboðaliðar, Fjósakallarnir, haldið áfram með sína einstöku vinnu en undanfarna vetra hafa þeir endurbyggt fjósið svo það þjóni þeim tilgangi sem það gerir nú. Í vetur hafa þeir verið að byggja hús undir salerni sem munu fara út á völl og verða þau klár fyrir næsta sumar, húsin munu standa við 7.teig og 14.teig. Við þökkum þeim kærlega fyrir þeirra framlag undanfarnar vikur, alveg ómetanlegir.

Það styttist í aðalfund okkar GA félaga sem haldinn verður um miðjan desembermánuð. Við minnum á að framboð til stjórnar og nefndarstarfa er í fullum gangi núna en kosið verður til formanns, tveggja stjórnarmanna og tveggja varamanna í stjórn á aðalfundinum. Áhugasamir mega hafa samband við kjörnefnd á tölvupóstinn steindor@gagolf.is. Þá erum við einnig að óska eftir áhugasömum félagsmönnum til að sitja í nefndum á vegum GA. Nánar hér

Nánari auglýsing um aðalfund GA mun koma á heimasíðu okkar á næstu dögum.