Fréttir úr starfi

Þá er júnímánuður liðinn og framundan eru spennandi dagar á Jaðarsvelli.

Spil á vellinum hefur farið vel af stað og mældist mjög vel fyrir að fyrstu tvær vikunnar var vellinum skipt í tvennt og komust því fleiri að á völlinn en aðra sumardaga. Í maí og júní í ár hafa verið leiknir 12.799 hringir samanborið við 9.016 hringi á sama tíma og í fyrra. Mikil ásókn er í rástímana okkar og viljum við biðla til félagsmanna okkar sem og annarra að muna eftir því að staðfesta sig við komu á völlinn og afskrá sig með góðum fyrirvara ef þið ætlið ekki að nýta ykkur rástímann ykkar. 

Akureyrarmótið í golfi er handan við hornið en það byrjar 9. júlí og endar á lokahófi 12. júlí. Völlurinn er í frábæru standi þessa dagana og verður einstaklega gaman að fylgjast með félagsmönnum okkar etja kappi á Akureyrarmótinu. Veðurspáin gerir ráð fyrri rjómablíðu og hvetjum við félagsmenn okkar til að taka þátt í þessu skemmtilega móti. Skráningarfrestur er til og með 7.júlí og er hægt að skrá sig hér.

Íslandsmót golfklúbba 18 ára og yngri fór fram í síðustu viku og sendi GA fjórar sveitir til leiks. Niðurstaðan varð einn Íslandsmeistaratitill í flokki drengja 16 ára og yngri, tvö brons og ein sveit endaði í 7. sæti. Flottur árangur hjá sveitunum okkar og er gaman að uppskera eftir þrotlausa vinnu krakkanna okkar í vetur undir handleiðslu þeirra Heiðars og Óla. 

Í dag voru færslur á flötum teknar út úr staðarreglum að undanskyldri 11. flöt. Áfram verður þó leyfilegt að færa um kylfulengd á brautum.

Vallareftirlit starfsmanna okkar hefur verið í fullum gangi frá opnun vallar og mun það halda áfram í sumar bæði á Jaðarsvelli og á Dúddisen vellinum. Við minnum á að daggjald á Dúddisen kostar 1.500kr og er þá hægt að spila eins marga hringi þann daginn og hugurinn girnist, einnig er hægt að versla sér sumarkort á vellinum. Við tökum alltaf vel á móti fólki sem vill aðstoða okkur með vallareftirlitið og mega áhugasamir félagsmenn endilega hafa samband á gagolf@gagolf.is ef þeir vilja aðstoða okkur með þetta. 

Opnunartími golfverslunar er 8:00-21:00 mánudag-fimmtudag og 8:00-20:00 föstudag-sunnudags og er þar hægt að gera kjarakaup á frábærum golfvörum. Klappir eru opnar 8:00-22:00 alla daga vikunnar. Við viljum hvetja félagsmenn okkar og aðra gesti til að ganga vel um æfingasvæðið og einnig að ná sér í Trackman appið áður en farið er á básana. Trackman appið veitir kylfingum betri innsýn inn í golfið sitt og með því er hægt að hafa yfirlit yfir öll högg sem hafa verið slegin á æfingasvæðinu. Með tilkomu Trackman range er æfingaaðstaða GA orðin í hæsta gæðaflokki og því er um að gera ða nýta sér þá tækni sem er í boði og hafa gott yfirlit með höggunum sínum.

Arctic Open var haldið 19-21 júní og tókst með eindæmum vel. 280 keppendur mættu til leiks og var spilað fram á rauða nótt báða dagana. Lokahófið var síðan haldið í golfskálanum á laugardagskvöldinu undir veislustjórn Söndru Barilli og tónlistaratriði frá Sjeira og Jóni. Við þökkum öllum þeim sjálfboðaliðum sem aðstoðuðu okkur með mótið kærlega fyrir hjálpinu og styrktaraðilum okkar. Við hlökkum strax til ársins 2026 í miðnætursólinni með okkar frábæru kylfingum.