Fréttir úr starfi

Það er óhætt að segja að starfsfólk GA hafi ekki setið auðum höndum í vetur en mikil verk hafa verið unnin.

Fjósakallarnir hafa unnið hörðum höndum hér við viðhald á skápaaðstöðu kylfinga. Snemma í haust var farið í betrumbætur á neðri hæð turnsins þar sem skáparnir þar voru fjarlægðir og var allt tekið í gegn þar inni. Mun rýmið nú nýtast sem geymsla fyrir GA en það hefur svo sannarlega vantað geymslupláss undanfarin ár. Þeir aðilar sem voru með skápa þar niðri fengu tölvupóst með upplýsingum um aðra skápa sem þeir geta nýtt sér, ef einhver fékk ekki tölvupóst má hann endilega hafa samband við jonheidar@gagolf.is og við finnum lausn á því.

Þá settu þeir upp 20 nýja skápa á Klöppum í framhaldi af þeim skápum sem hafa verið settir þar undanfarna tvo vetur og munu þeir skápar nýtast aðallega þeim sem misstu sína skápa úr turnunum við breytingar en mögulega opnast líka pláss fyrir aðra sem eru á biðlista. Fjósakallarnir hafa undanfarnar vikur verið á fullu við breytingar á litla turninum en þar mun verða ræsisaðstaða. Skáparnir þar voru fjarlægðir og hefur verið sett glerhurð í stað gömlu hurðarinnar ásamt því að gluggar eru á öllum hliðum turnsins, þessi breyting lítur gríðarlega vel út og mun bæta aðstöðu ræsis í golfmótum til muna og er góð upplyfting við fyrsta teig. Hér er hægt að skoða myndir frá framkvæmdum

Vinnan við nýja inniaðstöðu okkar er í fullum gangi og styttist í fyrstu veggjasteypuna á kjallaranum. Starfsmenn Lækjarsels og GA hafa unnið hér síðustu misseri og er gaman að sjá afraksturinn rísa hér jafnt og þétt. Áætlað er að vinnan við kjallarann klárist í Apríl. Hér má sjá skemmtilega myndaseríu frá framkvæmdum

Nú styttist svo í að farið verði í æfingaferð með krakkana okkar til Spánar en þangað mun stór hópur kylfinga halda ásamt foreldrum og þjálfurum og æfa við bestu aðstæður í viku eftir páska. Æfingaferðin er svo sannarlega góð gulrót fyrir þrotlausa vinnu og æfingar sem krakkarnir leggja á sig við vetrartímann og er komin mikil tilhlökkun í mannskapinn fyrir ferðinni. 

Mótaskrá okkar fyrir sumarið er að mestu orðin klár og er hægt að skoða hana hér. Uppselt er í Arctic Open og Hjóna- og parakeppni Icelandair og GA og hefur var skráning opnuð fyrir Höldur/Askja Open um miðjan febrúar og eru nú þegar tæplega 150 kylfingar skráðir en hámarksfjöldi í mótið er 204 kylfingar svo við hvetjum kylfinga til að skrá sig sem fyrst hér: https://tourentry.golfbox.dk/?cid=4322354