Fréttir úr æfingaferð GA krakka

Heiðar Davíð Bragason golfkennari GA er þessa stundina staddur á Nova Sancti Petri í æfingaferð í golfi með unga kylfinga frá GA og sendi okkur þessar fréttir úr ferðinni, gefum Heiðari Davíð orðið:

Æfingaferðin fer vel af stað og er mikil gleði hjá mannskapnum í bland við einbeitingu og vilja til að bæta sig og æfa. Föstudag, laugardag og sunnudag var spilað 18 holur og æft í 3-4klst, deginum lauk um kl.18. Yngstu krakkarnir fengu svo frí á sunnudeginum. Á mánudeginum var léttur dagur, 3-4 manna texas scramble mót án forgjafar þar sem 3 lið urðu jöfn á 7 undir pari. Á þriðjudag hefst svo tveggja daga mót, leikið 36 holur, með Golfklúbbi Selfoss. Fullorðnir og krakkar keppa í punktakeppni með forgjöf og höggleik. Alls um 70 manns í mótinu. Krakkarnir hafa staðið sig mjög vel og eru klúbbnum til sóma í framkomu og viðhorfi. Aðstæður hér á Novo Sancti Petri eru frábærar. Báðir vellirnir eru krefjandi, skemmtilegir og í frábæru standi. Hótelið flott og maturinn ekki til að skemma fyrir.

Kveðja úr sólinni;)

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem Heiðar lét fylgja með