Fréttir af Aðalfundi GA 2011

Tumi Hrafn Kúld Holumeistari GA 2011, Ævarr Freyr Birgisson Kylfingur ársins 2011 og Stefanía Elsa J…
Tumi Hrafn Kúld Holumeistari GA 2011, Ævarr Freyr Birgisson Kylfingur ársins 2011 og Stefanía Elsa Jónsdóttir handhafi Háttvísisbikars GSÍ 2011
Halldór Rafnsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn

Formaður bað fundarmenn að minnast eins félaga okkar sem féll frá á árinu. Í árskýrslu stjórnar var ítarlega gerð grein fyrir starfi síðasta árs og störfum nefnda klúbbsins. Formaður og gjaldkeri komu báðir inn á það í máli sínu hversu erfitt þetta ár var klúbbnum veðurfarslega. Formaður gat þess þó að margt var gert og framkvæmt á árinu en ársins 2011 verður seint minnst sem góðu golfsumri að Jaðri þar sem völlurinn var illa leikinn eftir veturinn, kalt vor og kuldi mikill á norðurlandi fram eftir sumri. Skýrslu formanns má lesa hér

Ársreikningur var samþykktur samhljóða svo og tillaga stjórnar að breyttum árgjöldum fyrir næsta ár. Ársreikning má sjá hér.

Tap var af rekstri klúbbsins nú í fyrsta sinn í mörg ár  eða um kr. 1.0 millj. fyrir fjármagnsliði en 1.4 millj. eftir fjármagnsliði. Tekjur voru 62.6 millj. og rekstrargjöld 63.6 millj.

Halldór Rafnsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn sagði að nú væri þetta orðið gott eftir 8 ár sem formaður. Halldór sat í fulltrúaráði ÍBA 1996-2000, varaformaður ÍBA 2000-2002, sat í landsliðsnefnd GSÍ 1998-2000, formaður unglingaráðs 1999, varaformaður GA 2002-2003 og tók við formennsku 2003 - 2011. Rúnar Antonsson og Arnar Árnason létu einnig af störfum í stjórn en þeir hafa báðir setið í stjórn klúbbsins í 7 ár, Rúnar sem varaformaður og Arnar gjaldkeri. Voru þeir kvaddir með virtum og veitt silfurmerki klúbbsins.

Sigmundur Ófeigsson var kjörinn formaður og með honum í stjórn verða Halla Berglind Arnarsdóttir varaformaður, Jón Steindór Árnason gjaldkeri, Örn Viðar Arnarson meðstjórnandi og Ingi Torfi Sverrisson ritari. Í varastjórn Gunnar Vigfússon og Guðlaug María Óskarsdóttir.

Veittar voru eftirfarandi viðurkenningar á fundinum, háttvísisbikarinn 2011 en hann er veittur þeim unglingi sem uppfyllir kröfur um háttvísi, prúðmennsku og framfarir í golfþíþróttinni, bikarinn hlaut Stefanía Elsa Jónsdóttir. Stefanía Elsa er öðrum góð fyrirmynd hvort heldur er í keppni eða leik og stundar sínar æfingar af mikilli samviskusemi. Hún hefur náð góðum árangri bæði hér norðan heiða og á mótaröð GSÍ þar sem hún hefur verið virkur þátttakandi. Sumarið sem leið náði hún best 4. sæti á GSÍ mótaröðinni, hún stóð sig einnig vel á norðlurlandsmótaröð unglinga og sigraði lokamótið með glæsibrag. Hún sigraði með yfirburðum 1. flokk kvenna í meistaramóti klúbbsins. Forgjöf hennar lækkaði úr 18.4 í 13.0.  Í sumar vann Stefanía við að leiðbeina yngstu börnum hjá klúbbnum undir handleiðslu Ólafs kennara ennfremur var hún að vinna í afgreiðslu og var hún allsstaðar hvers manns hugljúfi.

Þá var kylfingur GA 2011 kjörinn Ævarr Freyr Birgisson, bikar þessi er gefinn af Ómari Halldórssyni og var veittur í fyrsta sinn haustið 2007. Ævarr vann 1. flokk karla í Meistaramóti klúbbsins með yfirburðum, hann var Norðurlandsmeistari, hann vann 2 mót af 4 í Norðurlandsmótaröð unglinga í flokki 15 – 16 ára, var í 2 og 3 sæti í hinum tveimur. Ævarr var tvisvar á topp 10 á GSÍ mótaröð unglinga og nokkrum sinnum þar rétt við. Hann var í 8 sæti á íslandsmóti unglinga og endaði í 11 sæti á stigalista GSÍ mótaraðarinnar hann er á yngra ári þar og voru einungis 3 ofar en hann á listanum fæddir 1996. Ævarr var valinn í æfingahóp GSÍ einnig var hann valinn í karla sveit GA sem keppti í 1. Deild í sveitakeppni GSÍ. Hann var í A sveit GA unglinga sem lenti í 4 sæti af 22 sveitum, vann alla sína leiki þar. Hann tók þátt í 2 af 4 mótum í Norðurlandsmótaröð lágforgjafarkylfinga fullorðinna, spilaði þar í 1. Flokki varð í 2 sæti í fyrra mótinu og í 3 – 6 sæti á lokamótinu. Ævarr er ungur og efnilegur kylfingur sem á eftir að láta mikið til sín taka á næstu árum. Hann efur sett sér mikil og göfug markmið í golfíþróttinni í framtíðinni. Óskum við honum velfarnaðar og til hamingju með þennan titil. Forgjöf hans lækkaði um 3.6 á árinu og er nú 5.7

Júlíus Þór Tryggvason fékk afreksmerki klúbbsins en hann sigraði 2. flokk karla á Íslandsmóti GSÍ 35 ára og eldri.

Tumi Hrafn Kúld varð holumeistari GA 2011, Kristján Benedikt Sveinsson varð í 2. sæti og Anton Ingi Þorsteinsson holumeistari frá í fyrra varð í 3.sæti.

Viðar Sigurjónsson sviðstjóri ÍSÍ hér á Akureyri mætti á fundinn og afhenti formanni viðurkenningarskjal með endurnýjun á fyrirmyndarfélagi innan ÍSÍ. Golfklúbbur Akureyrar fékk þessa viðurkenningu fyrst 2006. Með því að taka upp gæðaviðurkenningu fyrir íþróttastarf geta íþróttafélög eða deildir látið gera úttekt á starfsemi sinni eða hluta hennar miðað við þær gæðakröfur sem íþróttahreyfingin gerir. Standist þau þessar kröfur fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ og geta kallað sig Fyrirmyndarfélag.

Á fundinn mættu 78 manns.

Fundarstjóri var Guðmundur Lárusson og fundarritari Gunnar Vigfússon.