Fréttatilkynning frá stjórn og vallarnefnd GA

Fyrirhugaðar framkvæmdir á vellinum næstu daga.

Fréttatilkynning frá stjórn og vallarnefnd GA

Eins og allir vita hefur tíðarfar ekki verið okkur hliðhollt í vor þannig að lítið sem ekkert hefur verið að gerast í grassprettu.

Miklar vangaveltur hafa verið um það hvað sé best að gera í stöðunni þar sem allt hefur verið gert fram til þessa til að koma flötum og öðrum svæðum á vellinum í það horf sem eðlilegt þykir miðað við venjulegt árferði en það sem hefur vantað er að hitastig sé í eða yfir 12-14 gráðum í nokkra daga.

Það er nú komin framkvæmdaáætlun sem unnið verður eftir nú næstu daga – Framkvæmdir hefjast nú á föstudag og fara svo á fullt á mánudag.Það sem farið verður í að gera er að jarðvegsskipta og byggja upp svokallaðar forflatir við þær flatir sem gerðar voru áður en til samninga kom við Akureyrarbæ 2007.

Við þær flatir sem gerðar hafa verið síðar, hafa verið gerðar forflatir.Með forflöt er átt við um 12 metra langan kafla að flötunum framanverðum, miðað við hvernig brautirnar eru leiknar, sem og hugsanlega að hluta til við jaðra þeirra á öðrum hliðum þar sem gert er ráð fyrir að ofanvatn renni af flöt.

Í þeim tilvikum þar sem jarðvegur þessara svæða er mold, hafa frostlyftingar stöðvað flæði  ofanvatns á vetrum og aukið klakamyndun, sem getur leitt af sér eina tegund kalskemmda, liggi klaki lengur en 90 daga yfir flöt samkv. rannsóknum.Farið verður í þessar framkvæmdir á flötum 5, 6, 7 og 18  verða þessar forflatir þökulagðar svo þær verði sem fyrst komnar í leikhæft ástand.  Síðan verður líka farið sömu framkvæmd við  14 og 16 flöt auk þess sem þær verða lagaðar.

Röskun á golfleik ætti ekki að vera mikil á meðan hinar nýju forflatir skjóta rótum. Þá er hugmyndin sú að „dulbúa“ forflatir þessar sem varanlegar varaflatir/vetrarflatir sem nota má við upphaf og enda leiktímabils og í neyð.

Þessar nýju vetrarflatir má síðan halda áfram að innleiða í áföngum á öllum brautum vallarins sem viðbót við þá þjónustu sem GA vill bjóða félagsmönnum sínum þ.e. að geta leikið golf við betri skilyrði á vorin og haustin.