Framkvæmdir á 3.braut

Nú hafa staðið yfir miklar framkvæmdir á 3.braut. Brautin var plægð og því næst fór jarðvegstætari yfir brautina og hún endurmótuð. Svæðið sem var endurmótað nær frá skurð sem er í 240m fjarlægð frá flöt og að 100m hælnum eða 140m langt svæði. Vallarstarfmenn hafa staðið í ströngu síðustu daga þar sem dren var lagt í svæðið með fjölda niðurfalla. Einnig var vatnslögn plægð í alla 3.brautina, eða frá teig og að flöt. Tengdir hafa verið úðarar í umrætt upptekið svæði og er það hluti af framtíðaráætlunum GA þar sem setja á úðara í brautir Jaðarsvallar í nánustu framtíð. Sáð hefur verið í svæðið og í gær 1.júní var dúkur settur á svæðið til að flýta fyrir spírun og viðhalda góðum raka.

Ráðgert er að leika 3.brautina sem par 3 holu fram til 22.júní og þá verði hægt að spila yfir svæðið en þó með því að færa boltann stystu leið útaf nýsáningarsvæðinu og leika þaðan. 3-4 vikum eftir það er möguleiki á að hægt verði að leika af nýsáningarsvæðinu með uppstillingu.

Varðandi forgjafarmál vegna tímabundins leiks sem par 3 holu verður ekki hægt að skrá þriðju holu til forgjafar. Ef kylfingar vilja skila fyrri níu til forgjafar þarf að skrá "x" eða núll punkta á þriðju braut en skila hinum 8 holum eðlilega.