Frábærir fyrstu dagar á Jaðri

Jaðarsvöllur opnaði þann 12.maí síðastliðinn og síðan þá hefur veðrið leikið við kylfinga og er vart munað eftir annari eins byrjun á golfsumrinu. Völlurinn hefur verið þéttsetinn af kylfingum þessa vikuna en um 2.300 hringir voru spilaðir fyrstu vikuna. Rástímafyrirkomulag hefur verið með þeim hætti að kylfingar hafa geta bókað sig á fyrri 9 eða seinni 9 og þurft að bóka báða staði til að spila 18 holur. Ánægja hefur verið með þetta fyrirkomulag og reynst vel fyrstu vikurnar en á laugardaginn munu rástímaskráningar fara í fyrra horf þar sem bókanir á völlinn verða fyrir 18 holur. Enn er beðið eftir að golfbox bjóði upp á þann möguleika að opna sérstaklega fyrir rástímabókanir á 10. teig ef kylfingar ætla sér einungis 9 holur. Félagsmenn okkar geta hins vegar alltaf hringt og athugað hjá starfsfólki okkar hvort laust sé á 10. teig eða mætt upp á völl og kannað málið hjá starfsfólki.  Mikil fjölgun meðlima heldur áfram í klúbbnum og er stutt í meðlim númer þúsund. Rástímaskráning hefur gengið vel og virðast kylfingar hafa verið snöggir að tileinka sér nýjar reglur er varða staðfestingu á mætingu á teig. En mikilli ásókn fylgja eðlilega ýmsar áskoranir sem sumar hverjar er erfitt að eiga við snemma vors þegar starfsmannateymið er fáliðað. Áætlað er líkt og önnur ár að sumarstarfsmönnum fari að fjölga í næstu viku. Mýmörg verkefni bíða vallarstarfsmanna en jákvæð þó þar sem mikil spretta hefur verið og verður því gaman að okkar flotta starfsfólk fái frekari aðstoð frá sumarstarfsfólki.

Það hefur sannarlega ekki farið framhjá þeim sem hafa heimsótt Jaðar í vor að gríðarlega mikil vinna hefur farið fram á svæðinu og ber þar helst að nefna inniaðstöðuna sem opnaði í desember síðastliðinn og var frábærlega sótt af kylfingum af svæðinu. Ótrúlega gaman var að sjá lífið sem þetta færði í golfskálann og verður gaman að sjá það vaxa og dafna. Ný golfbúð var svo opnuð samhliða opnuna vallarins þann 12. maí. Búðin er hin glæsilegasta og hefur upp á gott vöruúrval að bjóða. Síðast en ekki síst var sett upp Trackman Range í Klappir, en þar eru skjáir í hverjum bás þar sem kylfingar fá helstu tölur af slegnum höggum og geta einnig spilað velli þar, með því að slá boltann út á svæðið. Aðilar frá Trackman verða með kynningu á Trackman Range miðvikudaginn 21. maí kl. 17:00 og eru allir velkomnir þar.

Kylfingar greiða ekki sérstaklega fyrir þann búnað heldur eingöngu greitt fyrir boltana, líkt og áður. Mikil umferð hefur verið á æfingasvæðinu frá opnun en alls voru slegnir um 80.000 boltar síðustu tvær vikurnar í Apríl. Æfingasvæðið mun svo verða mun meira opið inní vetur og á vorin þar sem öll okkar aðstaða er komin á einn stað. Eitthvað er um að slegið sé á svæðinu utan opnunartíma, við viljum biðja kylfinga um að virða opnunartímann og aðstöðuna. Opnunartíminn mun fylgja eftirspurn þegar fram líður um stundir. Óheimilt er að nota efri hæðina utan opnunartíma og óheimilt er að fara út á æfingasvæðið sjálft.

Notkun Dúddisen hefur farið vaxandi síðustu ár og hefur hann nýst byrjendum afar vel. Þó nokkuð er um að hann sé sóttur seint á kvöldin við misjafna umgengni. Vallareftirlit verður því með honum sem og Jaðarsvelli sjálfum. Vallareftirlit verður eflt og munu starfsmenn GA veita þessu eftirfylgni, bæði umgengni sem og eftirliti með vallargjaldi. Greiða þarf vallargjald á Dúddisen líkt og Jaðarsvelli. Sjá verðskrá: https://www.gagolf.is/is/thjonusta-ga/verdskra

Jaðarsvöllur kemur vel undan vetri og lítur mjög vel út, litlar sem engar skemmdir eru eftir veturinn. Flatirnar líta mjög vel út og eiga bara eftir að batna þegar slátturinn á þeim eykst og sláttuhæð lækkar. Það er því spennandi sumar í vændum fyrir kylfinga. Starfsfólk GA er gríðarlega metnaðarsamt eins og glögglega má sjá á nýrri inniaðstöðu og nýju golfbúðinni okkar og sífeldum betrumbótum á vellinum sjálfum. Langar mig því að skora á alla kylfinga að ganga um svæðið af virðingu og ganga í lið með okkur að gera svæðið allt eins gott, hreint og snyrtilegt eins og möguleiki er. Boltaför eru alltof oft látin eiga sig, boltaför hafa mikil áhrif á gæði flatanna og er það eitt auðveldasta en mikilvægasta hjálpin sem kylfingar geta gert vellinum og starfsmönnum. Kylfingar hafa oft mikið að segja um sína upplifun og gæði flata m.a en samt er mjög ábatavant hvað mikið af boltaförum eru á flötunum orsakað af kylfingnum sjálfum, hvernig væri að sameinast um þessa "almennu umgengni" ? Eru kylfingar reiðubúnir í það verkefni? Tökum okkur öll til og göngum betur um vellina. Gerum við boltaför og þá öll boltaför, ekki bara þitt eigið. Gerum við kylfuför, tökum rusl og setjum í næstu ruslatunnu, hendum rusli í ruslatunnur. Það er nefnilega þannig að það sem kylfingar geta farið með út á völl geta kylfingar líka farið með af vellinum. Flestir vellir halda ruslatunnum í lágmarki og er það yfirleitt gert til að stytta vinnustundir á bakvið losun þeirra og nýta þann tíma frekar til að hlúa að grassvæðunum sem við hljótum öll að vera sammála sé mikilvægara en starfsmenn séu að elta rusl kylfinga. Starfsmennirnir okkar nefnilega brenna fyrir að völlurinn sé sem bestur fyrir ykkur kylfingana.

Steindór Kristinn Ragnarsson

Framkvæmdastjóri GA