Frábær árangur GA unglinga um helgina

Mikael púttar sigurpúttið
Mikael púttar sigurpúttið

Um helgina fór fram Jaðarsmótið í golfi, þar sem margir efnilegustu golfarar landsins komu og léku í frábæru veðri. Hitinn fór upp í 25 gráður hér um helgina og því lítið annað hægt en að njóta þess að spila. GA átti 16 keppendur í mótinu og stóðu þau sig öll með prýði!

Mikael Máni Sigurðsson sigraði flokk 17-18 ára drengja eftir hringi upp á 75-74-80. Patrik Róbertsson sýndi einnig svakalega takta á vellinum og var í 2. sæti á eftir Mikael, frábærir. Óskar Páll Valsson endaði í 6. sæti flokksins eftir hringi upp á 81-80-79. 

Í flokki 15-16 ára drengja röðuðu okkar menn sér líka í toppsætin. Þar voru skúli Gunnar Ágústsson og Veigar Heiðarsson í 2.- og 3. sæti, en einungis einu höggi munaði á milli þeirra. Skúli setti niður gott pútt á 18. flöt til að tryggja silfrið. Valur Snær Guðmundsson lauk leik jafn í 5. sæti. Flottir strákarnir.

3 stúlkur kepptu í flokki 15-16 ára, þær Kristín Lind, Lana Sif Harley og Kara Líf. Kristín Lind spilaði best af þeim og endaði í 6. sæti mótsins. Kara og Lana enduðu í 8. og 10. sæti, en þær sýndu báðar góða takta á fyrri mótsdegi.

Í flokki drengja 14 ára og yngri lék Ragnar Orri Jónsson best og endaði í 5. sæti eftir frábæran seinni dag. Ólafur Kristinn endaði í 7. sæti eftir góða spilamennsku. Þá voru Heiðar Kató og Ingólfur Árni í 26. sæti og 29. sæti.

Auður Bergrún var best í flokki stúlkna 14 ára og yngri. Hún leiddi mótið eftir fyrri keppnisdag og spilaði seinni hringinn einnig vel. Hún endaði í bráðabana við Fjólu Margréti úr GS, sem fékk fugl á fyrstu holunni. Okkar kona því í 2. sæti sem er glæsilegt hjá henni! Birna Rut og Bryndís Eva enduðu í 10. og 11. sæti eftir fína spilamennsku.

Lárus Ingi og Andrea Ýr léku í Hvaleyrarbikarnum fyrir sunnan um helgina. Þar endaði Andrea Ýr jöfn í 4. sæti mótsins með hringi upp á 81-75-75. Lárus spilaði mjög vel á 2. degi og kláraði á 68 höggum, en endaði í 19. sæti mótsins gegn mjög sterkum mótspilurum.