Föstudagsfréttir GA - allt að gerast

Góðan dag kæru GA kylfingar,

Það er margt að gerast hjá okkur þessa dagana og má segja að sumarið sé að bresta á með hvelli, burt séð frá því hvort sumarveðrið láti bíða eitthvað eftir sér.

Á sunnudaginn er vinnudagur GA frá 10-14. Það er nóg sem þarf að gera svo við getum opnað völlinn og munum við finna verkefni fyrir alla þá sem vilja koma að aðstoða okkur. Meðal verkefna eru: þrífa stéttir í kringum skála, setja útihúsgögn á palla, setja salla í stíga, raka glompur, týna rusl og margt fleira. Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem vettlingi geta valdið að mæta og aðstoða og verður svo golfvöllurinn opnaður fyrir þá félaga sem hjálpa okkur á sunnudaginn. Súpa, brauð og kaffi verður í boði fyrir duglegu sjálfboðaliðana sem mæta .

Þá erum við komin með útsölumarkað af FootJoy skóm sem verður hjá okkur næstu tvær vikur. Flott úrval af 2019 módelum af FJ Pro SL golfskóm á frábærum kjörum. Skórinn er vatnsheldur leðurgolfskór og var vinsælasta týpan úr FJ línunni í fyrra. Takmarkað magn er í boði af herra-, dömu- og barnaskóm. Við hvetjum GA félaga til að kíkja við á útsölumarkaðinn og gera kjarakaup af flottum golfskóm fyrir sumarið.
Pro SL herraskór: 18.900kr
Pro SL BOA herraskór: 20.900kr
Pro SL dömuskór: 16.900kr
DryJoys dömuskór: 18.900kr
Pro SL barnaskór: 9.900kr

Opnunartími GA frá og með 18.maí er 8-18 alla daga í golfbúðinni og á skrifstofu GA, opnunartíminn verður lengdur þegar lengra líður á sumarið.

Þá eru nýju stórglæsilegu salernin í anddyri golfskálans að verða klárt, múrararnir gerðu stórgott verk og verða þau hin glæsilegustu einnig var forstofan öll flísalögð og má segja að skálinn okkar sé eins og nýr.

Þá viljum við minna þá GA félaga sem ekki hafa gengið frá árgjaldinu sínu að gera það við fyrsta tækifæri áður en það byrjar að spila völlinn okkar. Greiðslur ættu að vera stofnaðar í heimabanka félaga og hægt er að ganga frá þeim þar eða hafa samband við gagolf@gagolf.is ef einhverjar spurningar eru með það. Þá viljum við einnig minna þá foreldra sem ekki hafa gengið frá greiðslu krakka sinna að gera það í gegnum NORA forritið sem er aðgengilegt á vef Akureyrarbæjar.

Félagsskírteini okkar GA félaga eru væntanleg og munum við láta vita á heimasíðu okkar þegar þau verða komin í hús.

Þar sem eflaust þó nokkrir GA félagar hafa það á stefnuskránni að ferðast innanlands og spila golf í sumar er vert að minna á vinavallasamninga GA við aðra golfklúbba en þá má sjá hér:

https://www.gagolf.is/is/um-ga/vinavellir Margir kunnulegir frá fyrri árum og síðan bættist við Svarfhólsvöllur á Selfossi. Við hvetjum GA félaga til að nýta sér það að spila á þessum flottu völlum á góðum kjörum.

Þá hef ég það ekki lengra í bili, hlakka til að sjá sem flesta á vinnudeginum á sunnudag og síðan hina þegar líður á sumarið. Við hjá GA erum gríðarlega spennt fyrir sumrinu og hlökkum mikið til.