Flottu Gobal Junior golfmóti lokið

Saga Traustadóttir sigraði í stúlkuflokki
Saga Traustadóttir sigraði í stúlkuflokki

Á föstudaginn síðasta lauk Global Junior golfmóti sem haldið var hér á Jaðri í fyrsta sinn. Flott golf var spilað og gekk mótið vel fyrir sig.
Fréttin er fengin af síðunni kylfingur.is 

Henning Darri Þórðarson og Saga Traustadóttir stóðu uppi sem sigurvegarar á flottu alþjóðlegu unglingamóti sem lauk í dag á Jaðarsvelli á Akureyri. Var mótið hluti af Global Junior Golf mótaröðinni sem er mótaröð fyrir unga kylfinga um allan heim.

Saga sigraði eftir æsispennandi baráttu en bráðabana þurfti til að knýja fram sigur. Saga og Ólöf María Einarsdóttir úr GM enduðu jafnar eftir hringina þrjá en þær  léku samtals á 15 höggum yfir pari. Katharina Steffl frá Austurríki endaði í þriðja sæti, höggi á eftir íslensku stelpunum eftir frábæran endasprett.

Henning Darri lék ótrúlegt golf í strákaflokki og sigraði með yfirburðum. Hann lék hringina þrjá á 5 höggum undir pari og sigraði með 11 högga mun. Í öðru sæti endaði Björn Óskar Guðjónsson úr GM á 6 höggum yfir pari en Vikar Jónasson, Andri Páll Ásgeirsson, Stefán Þór Bogason og Arnór Snær Guðmundsson deildu þriðja sætinu á 10 höggum yfir pari.

Fyrir sigurinn fá Henning og Saga þátttökurétt á gríðarsterku móti í Bandaríkjunum í vetur þegar lokamótið á Global Junior Golf mótaröðinni fer fram. Mótið heitir Greg Norman Academy Junior Invitational.