Flottir hringir á 3. degi Íslandsmóts

Golfklúbbur Akureyrar á 6 kylfinga sem komust í gegnum niðurskurðinn á Íslandsmótinu í golfi, sem haldið er í Mosfellsbæ. Allir spiluðu þeir fínt golf á 3. keppnisdegi, í misjöfnum veðuraðstæðum fyrir sunnan.

Andrea Ýr heldur áfram stöðugu gengi eftir hring upp á 79 högg á 3. degi. Hún situr því á flottum stað í mótinu og getur endað ofarlega með flottum hring á lokadeginum.  

Veigar Heiðarsson lék á 77 höggum sem er hans besti hringur í mótinu hingað til. Mikael Máni, sem hefur fylgt Veigari eins og skugginn í mótinu, lék á 76 höggum. Það munar því einungis 2 höggum á þeim félögum fyrir lokahringinn, sem verður spennandi að fylgjast með. Ævarr Freyr skilaði inn 77 höggum eftir erfiðar fyrri 9 holur og er því í fínni stöðu fyrir lokadaginn á +9 samtals.

Einn ástsælasti kylfingur golfklúbbsins, Víðir Steinar Tómasson, lék á 74 höggum í gær sem er einnig hans besti hringur í mótinu hingað til, gaman að sjá. 

Eftir tímabundið vallarmet og frábæran hring á 2. degi lék Eyþór Hrafnar flott golf á nýjan leik í gær og skilaði inn hring upp á 75 högg með skolla á síðustu. Hann er því meðal 15 efstu manna í mótinu og verður gaman að fylgjast með honum á lokadeginum.