Fjáröflun fyrir fatlaða á Arctic Open

Í ár verður í fyrsta sinn efnt til fjáröflunar á mótinu en ákeðið hefur verið að styrkja eitt verkefni árlega með framlögum frá keppendum og samstarfsfyrirtæjum um verkefnið.  Sérstaklega er horft til verkefna sem tengjast Akureyri og íþróttum. Í ár rennur söfnunarféð til útivistarklúbbsins Klakanna sem er samstarfsverkefni Sjálfsbjargar og Íþróttafélagsins Akurs á Akureyri. Klakarnir hafa staðið fyrir skíðaþjálfun líkamlega og andlega fatlaðra barna í Hlíðarfjalli.  Þar fá fatlaðir ásamt foreldrum og vinum tækifæri til að stunda skíðaíþróttina þar sem skíðabúnaður er aðlagaður fötlun og færni hvers iðkanda. Klakarnir hafa áætlanir um að útvíkka starfið og kenna fötluðum einnig siglingar, golf, klifur, útreiðar og fleira.Fjáröflunin fer þannig fram að á 18. braut vallarins gefst keppendum tækifæri til að leggja 1.000 kr. til verkefnisins.  Þeir slá síðan bolta af teig brautarinnar og reyna að hitta inn í hring sem er nokkrir metrar að þvermáli og markaður hefur verið um holuna á flötinni. Takist það munu samstarfsfyrirtæki verkefnisins tífalda upphæðina og leggja 10.000 kr. til söfnunarinnar fyrir hvert högg sem hittir í hringinn.  Fyrirtækin sem koma að verkefninu eru Sparisjóður Norðlendinga, Saga Capital, Greifinn, KEA og Vífilfell. Auk þess mun Sjóvá leggja eina milljón króna til verkefnisins ef einhver fer holu í höggi í leiknum. Upphæðin sem safnast með þessum hætti rennur óskipt til Klakanna og verður afhent í lokahófi mótsins laugardagskvöldið 23. júní.