Fínn árangur í sveitakeppninni um helgina

Síðastliðna helgi  fór fram sveitakeppni eldri kylfinga og unglinga víðs vegar um landið. GA sendi frá sér fimm sveitir í þessar keppnir og var árangurinn hinn fínasti. 

Í öldungarflokki karla keppti lið okkar í 1.deild og fór keppnin fram á Suðurnesjunum og enduðu þeir í 6.sæti af 8 liðum. Það þýðir að þeir spila aftur í 1.deild á næsta ári og mæta tvíefldir til leiks þá. Í öldungarflokki kvenna sendum við liðið okkar til Grindavíkur til leiks í 2. deildinni og stóðu þær sig með prýði og enduðu í 2.sæti sem þýðir að þær leika í 1.deild á næsta ár, aldeilis frábær árangur hjá þeim.

Í unglingaflokki pilta 18 ára og yngri sendum við tvær sterkar sveitir til leiks á Þorlákshöfn. Fór það svo að A sveitin okkar endaði í þriðja sæti eftir öruggan sigur á GKJ í síðasta leiknum. B sveitin okkar endaði í 11.sæti eftir sigur á B sveit GKG í lokaleiknum. 

Drengirnir okkar í keppni 15 ára og yngri fóru á Flúðir og spiluðu þar fínt golf og enduðu í 12.sæti af 16 liðum.

Í stúlknaflokki 15 ára og yngri sendi GHD og GA sameiginlegt lið til keppni og þar var hún Andrea Ýr Ásmundsdóttir fulltrúi okkar og fór það svo að þær unnu þá keppni og því annar Íslandsmeistaratitill Andreu í sumar orðinn að veruleika og óskum við henni innilega til hamingju með það.

Stórglæsilegar dömur hér á ferð.