Dagur tvö á Íslandsmótinu í golfi

Keppnisdagur tvö á Íslandsmótinu í golfi lauk í gærkvöldi í Vestmannaeyjum og komust fjórir kylfingar af fimm í gegnum niðurskurð hjá GA.

Andrea Ýr lék á 78 í gær og er jöfn í 8. sæti ásamt tveimur öðrum á samtals 14 yfir pari. Andrea hefur leik klukkan 12:20 í dag. Hún lék fyrri 9 holurnar á einu höggi yfir pari í gær en fataðist flugið á seinni 9 sem hún lék á 7 höggum yfir pari. 

Í karlaflokki lék Lárus Ingi best okkar GA manna á tveimur höggum undir pari en hann fékk fimm fugla og þrjá skolla á hringnum í gær. Lalli þurfti að spíta í lófana eftir vonbrigðarhring fyrsta daginn til að ná niðurskurði og gerði það heldur betur en hann situr sem stendur í 43. sæti ásamt fjölmörgum kylfingum á samtals 9 höggum yfir pari. Þar er einnig Skúli Gunnar en hann lék hringinn í gær á 73 höggum. Skúli fékk þrjá fugla, fjóra skolla og einn tvöfaldan skolla. Skammt eftir þeim situr Veigar í 60. sæti á samtals 11 höggum yfir pari en Veigar lék hringinn eins og Skúli í gær á 73 höggum. Veigar fékk tvo fugla, þrjá skolla og einn tvöfaldan skolla. Veigar hefur leik klukkan 8:10 í dag, Lárus klukkan 8:40 og Skúli Gunnar klukkan 9:00. 

Þá lék Óskar Páll á 75 höggum í gær, bætti sig um 9 högg frá fyrsta degi en því miður þá dugði það ekki til að ná niðurskurði. Óskar fékk tvo fugla, fimm skolla og einn tvöfaldan skolla og hefur því lokið leik á þessu Íslandsmóti.

Í karlaflokki lék Birgir Guðjónsson best allra í gær á 6 höggum undir pari og leiðir mótið en hann hefur tveggja högga forustu á næstu menn. Í kvennaflokki heldur Perla Sól toppsætinu en hún lék aftur á pari vallarins og er með þriggja högga forustu á Ólafíu Þórunni sem einmitt vann Íslandsmótið árið 2016 þegar það var haldið á Jaðarsvelli.

Við óskum keppendum góðs gengis í dag og munum flytja áfram frekari fréttir af þeim. 

Hér er hægt að fylgjast með gangi mála í mótinu.