GA kvennasveitin í 2.sæti í 2.deild

Um liðna helgi fór fram Íslandsmót golfklúbba 2. deild kvenna í Borgarnesi og sendi GA sveit sína þangað. 

Níu klúbbar tóku þátt og fór efsta liðið bein upp í 1. deild. Fyrst var leikinn 36 holu höggleikur og mættust síðan fjögur efstu liðin í undanúrslitum og síðan var leikinn úrslitaleikur um hvaða lið færi upp. Lið GA var þannig skipað: Andrea Ýr Ásmundsdóttir, Kara Líf Antonsdóttir, Kristín Lind Arnþórsdóttir og Lana Sif Harley. Stelpurnar stóðu sig með prýði og lék Andrea höggleikinn best allra á samtals einu höggi yfir pari en hún lék á 69-74 höggum, Kara Líf var þriðja í höggleiknum á +16 höggum, 82-76, Lana Sif 27. sæti á +33 88-87 og Kristín Lind í 43. sæti á +57 100-99.

Í undanúrslitum mættu okkar stelpur kvennasveit Golfklúbbsins Leynis og sigruðu örugglega 3-0, Kara og Lana unnu fjórmenninginn 6/5, Andrea sinn leik 8/7 og Kristín Lind sinn leik 3/1. Í úrslitaleiknum mættu okkar stelpur Golkflúbbi Selfoss en sá leikur tapaðist 2-1, Kristín og Lana töpuðu fjórmenningnum 2/1, Kara vann sinn leik 4/3 og Andrea þurfti að gefa sinn leik þar sem hún er nú mætt aftur til Bandaríkjanna í háskólanám. 

Það mátti ekki miklu muna að stelpurnar okkar færu upp um deild með þetta efnilega lið en við erum bjartsýn á framhaldið fyrir næsta ár enda efnilegar stelpur að koma upp í sveitina.