Andrea Ýr í 3.sæti á Íslandsmótinu í holukeppni

mynd:seth@golf.is
mynd:seth@golf.is

Andrea Ýr Ásmundsdóttir var eini kylfingur GA sem tók þátt í Íslandsmótinu í holukeppni sem haldið var í Borgarnesi nú um helgina. 

Mótið var með öðruvísi sniði en undanfarin ár en 36 holur af höggleik voru spilaðar á föstudeginum og fóru svo 16 efstu kylfingarnir áfram í 16 manna úrslit sem spiluð voru á laugardeginum eins og 8 manna úrslitin. Undanúrslitaleikirnir og úrslitaleikirnir fóru svo fram í dag, sunnudag. 

Andrea Ýr spilaði gott og stöðugt golf í höggleiknum og lék báða hringina á 72 höggum og endaði í 6. sæti í höggleiknum á samtals tveimur höggum yfir pari. Í 16 manna úrslitum sigraði Andrea hana Árný Eik Dagsdóttir á 21. holu í sannkölluðum naglbít og síðan lagði hún Ragnhildi Kristinsdóttir á 19. holunni í 8 manna úrslitum. Það þýddi að Andrea var á meðal fjögurra kvenna í undanúrslitum í dag og mætti hún Perlu Sól Sigurbrandsdóttir í undanúrslitum en þurfti að sætta sig við 3/1 tap í þeim leik. Það var síðan Guðrún Brá Björgvinsdóttir sem beið hennar í leik um þriðja sætið. Sá leikur var hnífjafn hjá þeim stelpum og fór það svo að Andrea sigraði að lokum á 19. holu - stórglæsilegt hjá henni.

Andrea sýndi miklar stáltaugar í mótinu, sigraði þrjár af fjórum viðureignum sínum og fóru þær allar í bráðabana þar sem Andrea vann. Við hjá GA óskum Andreu innilega til hamingju með frábært mót og var hún svo sannarlega klúbbnum til sóma. 

mynd/seth@golf.is