Bryndís Eva Íslandsmeistari í holukeppni 15-16 ára

Bryndís Eva var rétt í þessu að sigra úrslitaleikinn í Íslandsmóti unglinga í holukeppni 4/2 sem haldið var á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Er þetta annar Íslandsmeistaratitill Bryndísar á rétt rúmri viku en hún varð Íslandsmeistari í höggleik 15-16 ára þann 17. ágúst síðastliðinn. Við hjá GA erum gríðarlega stolt af Bryndísi og hennar árangri en Bryndís varð Íslandsmeistari í höggleik í flokki 13-14 ára árið 2023 og síðan í flokki 15-16 ára bæði 2024 og 2025! 

Lilja Maren endaði í 4. sæti eftir hörkubaráttu í leiknum um bronsið en hún tapaði 2/1, flottur árangur hjá Akureyrarmeistaranum. Björk Hannesdóttir var einnig á meðal þátttakenda í 15-16 ára stúlknaflokki og datt út í 16 manna úrslitum eftir tvær holur af bráðabana. 

Í flokki 15-16 ára drengja lék Arnar Freyr Viðarsson best GA félaga en hann spilaði um bronsið og tapaði þeim leik eftir þrjár holur í bráðabana, Arnar spilaði vel og fékk meðal annars örn á sautjándu holu. Ágúst Már datt út í 8 manna úrslitum eftir svekkjandi 1/0 tap og Egill Örn tapaði sínum leik í 16 manna úrslitum. 

Í flokki 17-18 ára drengja var Hafsteinn Thor Guðmundsson eini GA keppandinn og tapaði hann í 16 manna úrslitum. 

Við óskum Bryndísi til hamingju með titilinn og okkar krökkum til hamingju með flottan árangur. Áfram GA.