Bréf til félagsmanna

Endurnýjun flata á Jaðarsvelli.

Frá: Edwin Roald

Til: Félagsmanna í Golfklúbbi Akureyrar

Dags: 16. september 2008

Efni: Endurnýjun flata að Jaðri 

Ágætu kylfingar, 

Það var aldeilis handagangur í öskunni hjá okkur að Jaðri í vor og fyrri hluta sumars. Á þessum tíma höfum við ráðist í margvísleg verkefni sem við bindum miklar vonir við og teljum til mikilla bóta fyrir Jaðarsvöll og þ.a.l. félaga í Golfklúbbi Akureyrar. Enn er mikil vinna framundan, en mér er ofarlega í huga hin mikla jákvæðni sem þið félagar hafið sýnt í garð þessarar vinnu þrátt fyrir þá röskun sem orðið hefur á notkun ykkar á vellinum á meðan. Þið eigið þakkir skilið fyrir þessa þolinmæði og færi ég ykkur þær af heilum hug frá vallarnefnd, starfsfólki og ekki síst hvað sjálfan mig varðar. Enn er mikil vinna framundan, en aðstæður voru um margt sérstakar nú í júní. Þar fór saman óvenjulega mikið rask á leik sem og álag á vallarstarfsmenn. Það segir sig sjálft að umhirða golfvallarins fékk ekki jafn mikla athygli og í meðalári. Eigi að síður þótti mér ástand hans mjög gott, þegar horft er framhjá vinnusvæðum sem blasa víða við. Flatir vallarins tel ég og heyri að hafi sjaldan verið jafn góðar og í sumar. Sú gagnrýni á störf okkar sem fram kom einna oftast, þ.e. að svo virtist sem hafist væri handa við hin ýmsu verk en fæst þeirra kláruð, er að mínu viti skiljanleg og á tvímælalaust rétt á sér. Skýringuna má að miklu leyti rekja til þess að þegar við byrjuðum vinnu við fimm nýjar flatir síðsumars 2007, þ.e. flatir nr. 3, 12, 13, 15 og 17, var fátt annað á stefnuskránni en að einbeita sér að þeim. Við þessa vinnu bættist síðan flest það sem tengist nýju vökvunarkerfi vallarins. Þar sem í ljós kom að Norðurorka myndi eiga erfitt með að útvega okkur það vatnsmagn eða flæði sem þarf til að þjónusta 27 holur, auk þess sem töluverður kostnaður fylgdi því að kaupa vatn til vökvunar, ákváðum við að grafa miðlunarlón og safna þannig vatni sjálf. Þessu vatni getum við nú dælt um nýjar vatnslagnir um allan völl og munum halda áfram að leggja lagnir að öllum nýjum teigum og flötum. Þetta jók verulega á umfang þeirrar vinnu sem okkur þótti nauðsynlegt að fara í þegar þessar ákvarðanir voru teknar. Þar sem við vildum sá fræjum í allar nýjar flatir sem trufla leik ekki of mikið, í stað þess að tyrfa, var ljóst að við þurftum að geta vökvað þær að vild til að hvetja fræið til spírunar. Gagnrýni er af hinu góða. Orðið felur í sér að hún er til gagns. Það má alltaf gera betur og samtöl okkar sem að verkinu höfum staðið snúast flest hver um það. Þó er ekki hægt að loka augunum fyrir þeirri augljósu staðreynd að vallarstarfsmenn eru of fáir. 

Helmingur flatanna nú endurnýjaður 

Nú höfum við endurbyggt helming flata golfvallarins og erum strangt til tekið með tvær tegundir flata í notkun. Í efsta lagi gömlu flatanna er mold. Ein ástæða þess að við höfum ráðist í endurbyggingu flatanna er að tryggja áreiðanleg gæði þeirra frá einu vori til annars. Í stuttu máli eru vaxtarskilyrði í gömlu flötunum þess eðlis að í þeim þrífast best grös sem þola íslenskan vetur ákaflega illa. Enn fremur er stór hluti þeirra einær, t.d. ákveðin afbrigði varpasveifsgrass. Því þurfum við oftar en ekki að bíða eftir að það sái sér sjálft að vori og fyrri hluta sumars og þétti svörðinn með þeim hætti yfir sumarið. Þess vegna gerist það nánast árlega að flatir Jaðarsvallar eiga undir högg að sækja framan af sumri, en ná sér síðan vel á strik síðsumars. Það gengur þó ekki til lengdar að byrja nær alltaf á hverju vori með hálfónýtar flatir. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs. Í vinnu okkar við nýju flatirnar förum við öðruvísi að. Í efsta laginu, sem er 30 sentímetra þykkt, er hreinn sandur. Aðferðafræði okkar stangast e.t.v. á við brjóstvit leikmannsins, sem er fullkomlega eðlilegt. Almenn þekking okkar kemur úr þeim geira sem staðið hefur okkur nærri yfir margan mannsaldurinn – sjálfum landbúnaðinum. En viðfangsefni bóndans, sem eru m.a.s. greipt í móðurmál okkar sbr. og vallarstjóra golfvallar eru gjörólík. Þeir sem lausir eru við að hafa sökkt sér í golfvallafræðin tala oft um sprettu og hvað lífið er nú dásamlegt þegar hún er hröð. Hún er ekki alslæm svosem, en langt frá því að vera jafn jákvæð á golfvelli, þ.e. góðum golfvelli, eins og í heyskap. Í grassverðinum er oft æðisgengin barátta milli tegunda. Þau grös sem við höfum reynt að rækta má kalla vingulgrös upp á íslenskuna, Fescue á ensku og Festuca á latínu. Oft er talað um túnvingul, en hann er þó með réttu aðeins ein undirtegund Festuca. Golfleikurinn var fundinn upp á vingulgrasi að mestu. Það er mjög nægjusamt og sökum þess dafnar það best þar sem frjósemi er af skornum skammti, eins og á einmitt við um sendnar austurstrendur Skotlands þar sem golfíþróttin sleit barnsskónum. Þetta land var bændum augljóslega ekki mjög kært. Þeir notuðu það í mesta lagi til beitar, en land af þessu tagi er kjörið til golfiðkunar. Þar sem þetta land var ekki ýkja eftirsóknarvert fékk þessi “vitleysa” sem ríflega 60 milljónir jarðarbúa stunda í dag að viðgangast. Fín áferð vingulgrasanna vekur enn í dag hrifningu kylfinga, sérstaklega á flötum þar sem boltinn rúllar mjúklega á þunnum blöðum vingulgrasanna, sem líkjast meir nálum en blöðum annarra grasa. Það hentar því flestum vingultegundum illa að treysta á upptöku orku gegnum blöðin. Flatarmál þeirra er lítið og ljóstillífun eftir því. Það kemur ekki að sök, því rótarkerfi þeirra geta náð mjög djúpt. Dæmi eru um að rætur vingulgrasa á golfflöt hafi teygt sig gegnum allt sandlagið og niður í mölina sem undir liggur. Til samanburðar, þá hafa rætur varpasveifsins og annarra grasa sem hafa ráðið ríkjum í gömlu flötunum að Jaðri rist svo grunnt að torfið hefur molnað í höndum okkar í hvers kyns tilraunum við að skera það, flytja og nota á öðrum svæðum vallarins, t.d. til að þekja bráðabirgðateiga. 

Eru flatirnar of harðar? 

Það er nægjusemin og geta vingulgrasanna til að geyma orku sem gerir þau að hentugasta golfflatargrasi sem völ er á fyrir norðlægar slóðir, þ.e. ef markmiðið er að fá áreiðanleg gæði vor eftir vor. Fara þar saman hagsmunir gjaldkera klúbbsins og kylfinganna sjálfra, að einu sígildu kvörtunarefni frátöldu, þ.e. hversu erfiðlega flestum kylfingum gengur að stöðva boltann á flöt eftir innáhögg. Skal engan undra, því ein áhrifaríkasta aðferð vallarstjóra til að hvetja vingulgrös til vaxtar umfram önnur grös er að halda vökvun í lágmarki. Við það missa flatirnar græna litinn, sem er hættumerki hjá flestum öðrum grösum en vingultegundum. Það er ástæðulaust að óttast um heilsu þeirra þótt brúni eða guli liturinn hafi tekið við af þeim græna. Raunar eru flestar vingultegundir fremur fölar í samanburði við mörg önnur grös og kunna sumir kylfingar því illa – vilja fremur sterkari grænan lit á flatirnar. Á sama hátt eru meiri líkur á að vingulgras dafni ef áburðargjöf er hófleg. Þessi grastegund getur því stuðlað að sparnaði, bæði hvað efniskaup og vinnustundir varðar. Blaðvöxturinn er á köflum svo hægur að líta má svo á að sláttur sé óþarfur suma morgna. Dæmi er um að slætti hafi verið sleppt stöku sinnum að morgni keppnisdags á stórmótum atvinnumanna þar sem umrædd grös eru svo til allsráðandi í sverðinum. Í þau skipti var sláttuvélum einungis ekið yfir flatirnar með keflin niðri til völtunar. Ég tel mjúkar flatir, og þá gengdarlausu vatns-, áburðar- og lyfjanotkun sem fylgir þeirri stefnu, hluta af allsherjar gerilsneyðingu sem hefir tröllriðið golfleiknum síðan sjónvarpsútsendingar frá golfmótum atvinnumanna hófu göngu sína. Eins mikið og sjónvarpið hefur stuðlað að útbreiðslu golfíþróttarinnar allt frá 7. áratugnum þegar Arnold Palmer og Jack Nicklaus urðu þannig tíðir gestir bandarískra heimila, þá hafa áhrif þessara útsendinga á smekk og kröfur hins almenna kylfings hamlað vexti íþróttarinnar og veikt golfiðnaðinn gríðarlega fyrir sveiflum í efnahagslífi þar sem árlegur umhirðukostnaður meðalgolfvallar er orðinn of mikill. Þetta á sérstaklega við um Bandaríkin. Að sjálfsögðu er hér ákveðin einföldun á ferð, en þróunin er eigi að síður þessi í meginatriðum og er ásamt öðrum þáttum helsta ástæða þess að margir bandarískir golfvellir eiga nú undir högg að sækja, verða gjaldþrota eða eru seldir undir önnur landnot. 

Ofvökvun getur reynst dýrkeypt 

Ég tel að góður golfvöllur eigi að hvetja okkur til að bæta leik okkar, læra ný högg o.s.frv. Mjúkar flatir leggja lítið sem ekkert af mörkum til þess málstaðar. Litlu máli skiptir hversu vel bolti er sleginn inn á slíka flöt. Hann fer ekki langt eftir lendingu. Því er litla umbun að fá fyrir vel útfært högg. Fórnarkostnaður við mjúkum flötum er mikill, sérstaklega á norðlægum slóðum þar sem vetur slítur notkunartíma vallanna í sundur. Til að mýkja flatirnar þarf að vökva þær. Með vökvun batna vaxtarskilyrði fyrir einærar grastegundir og önnur grös með lítið vetrarþol. Til að halda þeim gangandi þarf meiri áburð. Kostnaðurinn eykst og tími kjörskilyrða til golfleiks styttist. Þetta er vítahringur sem erfitt getur reynst að brjótast úr. Staðsetning bolta úti á braut, eða almennt “á leið”, fær aukið vægi með harðari flötum. Boltinn þarf þannig meira pláss til að staðnæmast eftir lendingu og því er mikilvægt að komast hjá því að þurfa að slá yfir hindranir nærri lendingarsvæðinu. Harðari flatir gera höggstyttri kylfingum og þeim sem hafa hærri forgjöf að komast fyrr inná flöt en ella, eða öllu heldur í færri höggum, þar sem boltinn rúllar meira í nánd við flötina. Til þess er þó mikilvægt að næsta umhverfi flatar hafi samskonar svörun og sjálf flötin, og það er einmitt nokkuð sem við höfum reynt að tryggja við nýlegar framkvæmdir. Aðdraganda flatar (forgrín), þ.e. þann hluta sem reiknað er með að slá snöggt, byggjum við með 15 cm þykku sandlagi og ræktum með sömu grösum og á flötinni sjálfri. 

Stæðist Augusta National ekki væntingar okkar? 

Harðari flatir og forflatir eru ein af albestu leiðunum sem við höfum til að jafna leikinn milli byrjenda og háforgjafarfólks annars vegar og lágforgjafarkylfinga hins vegar. Slíkar leiðir eru vandfundnar þegar menn keppast við að gera vellina sem erfiðasta fyrir betri kylfinga. Slíkt er oft gert með því að mjókka brautir og leyfa grasinu utan brauta að vaxa. Það gerir þó lítið annað en að leggja stein í götu hins almenna kylfings og svipta golfvöllinn taktískum fjölbreytileika sínum, þar sem brautir verða oftar en ekki of mjóar til að svigrúm skapist til ákvarðanatöku, þ.e. hvort leika eigi til vinstri eða hægri eftir því hvar holan er skorin á flötinni o.s.frv. Að Jaðri viljum við halda breidd brautanna, sem um leið gefur okkur tækifæri á að skapa margslunginn golfvöll sem býður oftar en ekki upp á fleiri en eina leið að holunni. Slíkum fjölbreytileika er best náð með hönnun á og við flötina, þar sem halli og brot í henni stýra því hvaðan best er að leika inn á hana. Slíkt verður þó til lítils ef flötin er eins og svampur og tekur jafnt við boltum, nánast sama úr hvaða átt þeir koma. Dæmi um golfvelli sem eru í hávegum hafðir, að miklu leyti vegna þess einmitt hversu vel þetta á við, eru Augusta National, þar sem Masters fer fram í apríl á hverju ári. Flest ár tekst vallarstarfsmönnum Augusta ætlunarverk sitt hvað þetta varðar, að tryggja að boltinn stökkvi fremur en að sökkva er hann lendir á flötinni. Takið eftir því næst í apríl, boltinn tekur a.m.k. eitt stórt stökk áður en hann ýmist bremsar snöggt eða hreinlega missir hraða jafnt og þétt. Ekkert nema stórrigningar koma í veg fyrir þetta. Við eigum fátt annað sameiginlegt með þessum ágæta velli, þar sem þessu sameiginlega atriði er náð fram með allt öðrum grastegundum og mun hærri fjárhæðum. Ég á bágt með að sjá fyrir mér íslenskan kylfing ganga af 18. flöt að loknum hring á Augusta og segja: “Flatirnar hefðu mátt taka betur við.” 

Til hvers þá að kaupa vökvunarkerfi? 

Í framhaldi af þessu er hugsanlega eðlilegt að spyrja: “Hvers vegna er þá verið að fjárfesta í vökvunarkerfi?” Satt er, vil ég meina, að sumir íslenskir golfvellir ættu einmitt ekki að setja niður sjálfvirka úðara. Á því leikur þó enginn vafi að slíkt kerfi er kærkomið að Jaðri – og þótt fyrr hefði verið. Tilgangurinn er tvíþættur, annars vegar að auðvelda okkur ræktun á nýjum flötum (við eigum jú 9 eftir á aðalvellinum og 9 til viðbótar á fyrirhuguðum aukavelli) og hins vegar reglubundin hófleg vökvun sem ljóst er að þarf að eiga sér stað reglulega miðað við þá þurrkatíð sem ríkt hefur um nýliðin sumur á Norðurlandi. Ég er sannfærður um að kerfið muni fljótt sanna gildi sitt. 

Torfið veldur vonbrigðum 

Við höfum fram að þessu tyrft allar nýjar flatir sem við höfum byggt að Jaðri frá 2004. Þar sem þessar flatir eru svo til á sama stað og þær gömlu höfum við viljað flýta opnun þeirra eins og hægt er. Sáning, eða öllu heldur fræspírun, tekur að sjálfsögðu mun lengri tíma og er vart valkostur í þessari stöðu, þótt kostnaður við sáningu sé margfalt minni en við tyrfingu. Á Íslandi eru ekki margir framleiðendur á sérræktuðu flatartorfi. Ég hef orðið var við talsverða hnignun í gæðum á því torfi síðustu ár. Svo virðist sem ræktunaraðilar séu hættir að sá þeim grastegundum sem við sækjumst eftir í ræktunarsvæði sín. Út frá sjónarmiði framleiðsluskilvirkni er það skiljanlegt, þar sem vingulgrösin eru lengi að spíra og mynda þéttan svörð. Torfið sem við fengum á 3. og 12. flöt nú í vor líktist meir grasi sem við erum líklegir til að velja á brautir, og vantar þó samt enn upp á gæðin að mínu mati. Ég er mjög vonsvikinn með grasið á þessum tveimur flötum. 

Sveltistefnan er sársaukafull 

Það er rétt að árétta að nýju flatirnar að Jaðri voru sérstaklega harðar í sumar. Þetta á eftir að breytast. Svörður á eftir að þéttast betur og viðnám milli flatar og bolta eftir að aukast. Þessi þróun er lítið eitt hægari en við hefðum kosið, þar sem við höfum lagt áherslu á að ná óæskilegum grastegundum, sem bárust með torfinu, úr sverðinum. Til þess þurfum við að “svelta” þær út. Það er því ofureðlilegt að spurningar vakni meðal kylfinga. Við munum við fyrsta tækifæri færa okkur nær því jafnvægi sem þarf að ríkja að staðaldri, þ.e. að vökva flatir nógu mikið til að þær sýni þá svörun sem kylfingar sækjast eftir, en nógu lítið til að halda óæskilegum grastegundum í skefjum. Þessi gullni meðalvegur er vandfundinn. Einnig reyndist vallarstarfsmönnum erfitt á liðnu sumri að finna ýmsum aðgerðum tíma, sem hefðu getað “mýkt” flatirnar, t.d. götun. Betri tækjakostur myndi létta slík verk til muna. Markmið okkar sem að málinu koma eru að hámarka þá ánægju sem kylfingar eiga að geta fengið af því að leika golf að Jaðri. Við erum fullvissir um ágæti þeirra aðferða sem við beitum, en ég þykist hafa fullan skilning á þeim áhyggjum sem margir félagsmenn virðast hafa af vellinum sínum. Það er einfaldlega ekki tekið út með sældinni að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, en sjálfur trúi ég ekki öðru en að lenging leiktímabils og áreiðanlegri gæði flata frá ári til árs vegi þyngst í huga flestra félagsmanna þegar að því kemur að bera saman kosti og galla þess sem við höfum þegar gert og hyggjumst hrinda í framkvæmd að Jaðri. 

Með vinsemd og virðingu,

Edwin Roald Rögnvaldsson

Golfvallahönnuður