Bræðrabylta í bændaglímunni á laugardag

Þá er klárt hverjir verða bændur í bændaglímunni hjá okkur á laugardaginn. Veðurspáin er með eindæmum góð, 11 gráður, heiðskýrt og sunnangjóla og hvetjum við alla GA félaga sem ekki hafa skráð sig til leiks að gera það sem fyrst áður en það verður fullt í mótið.

Bændur í glímunni í ár verða bræðurnir Konráð Vestmann Þorsteinsson og Anton Ingi Þorsteinsson. Þeir bræður kunna að vera mestu mátar utan vallar en þegar þeir stíga inn á völlinn er lítið um bræðraást og er ljóst að þeir munu berjast til síðasta blóðdropa í glímunni!

Konni, stóri bróðir, er okkur GA félögum vel kunnugur og hefur verið lengi í GA. Hann er með 7,3 í forgjöf og hefur lengi verið öflugur í golfi og att ófáar barátturnar við bróðir sinn á golfvellinum. 

Toni, litli bróðir, hefur eins og Konni verið lengi í GA og unnið mikið og gott starf fyrir barna- og unglingastarf GA undanfarin ár. Hann er með 7,4 í forgjöf og er til alls líklegur gegn stóra bróðir. 

Það er ljóst að Konni og Toni munu gera allt sem í valdi sínu stendur til að leiða sitt lið til sigurs í mótinu og hlökkum við mikið til að fá GA félaga í rjómablíðuna á laugardaginn og taka þátt í einu skemmtilegasta móti sumarsins.

Skráning fer fram á golfbox, í síma 462-2974 eða á jonheidar@gagolf.is