Bjarni Þórhallsson endurkjörinn formaður

Í gær var haldinn aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar fyrir rekstrarárið 2020 en fundurinn var haldinn í gegnum netið í þetta skiptið vegna sóttvarnarreglna og mættu 45 GA félagar á fundinn en á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Það var hann Sigmundur Einar Ófeigsson sem var kosinn fundarstjóri og stýrði hann fundinum af glæsibrag og Skúli Eyjólfsson var kosinn ritari. Bjarni Þórhallsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar, hóf fundinn á því að lesa skýrslu formanns og fór því næst Steindór Kristinn, framkvæmdarstjóri, yfir rekstrarárið ásamt því að fara yfir ársreikning klúbbsins fyrir 2020 og var hann samþykktur af fundargestum.

Hagnaður ársins nam 18.590.085kr eftir fjármagnsliði, samanborið við 1.090.228kr hagnað árið áður. Rekstrartekjur jukust um 27,3 milljónir á árinu eða um 18%. Vel gekk að borga niður skuldir á árinu en aldrei hefur verið greitt niður jafn mikið af skuldum á einu ári. Rekstrartekjur námu 179.538.332kr og rekstrargjöld voru 154.024.771kr með afskriftum upp á 8.058.582kr og niðurfærslu viðskiptakrafna upp á 3.711.337kr.

EBITDA rekstrarársins var 37.000.000kr sem er mikil aukning frá fyrra ári.

Borin var upp tillaga stjórnar um árgjöld fyrir 2021 sem var samþykkt. Lítil hækkun er á árgjöldunum fyrir næsta ár og verðskrá okkar má sjá á heimasíðu eða hér. Áfram bjóðum við þeim sem greiða árgjöldin sín fyrir 15. mars áfyllingu á kort á Klappir, æfingasvæði GA, paráfylling er innifalin í árgjaldi fyrir þá meðlimi.

Steindór fór yfir rekstaráætlun fyrir árið 2021 en í henni eru tekjur áætlaðar 175.000.000kr samanborið við 179.538.332kr árið 2019/2020. Gjöld eru áætluð 161.800.000kr samanborið við 154.024.771kr árið áður.

Því næst var komið að kosningu stjórnar en Bjarni Þórhallsson var endurkjörinn formaður GA. Tvö laus sæti voru í stjórn en þær Guðlaug María og Eygló voru endurkjörnar. Þá var kosið um varamenn í stjórn og voru þeir Vigfús Ingi og Viðar Valdimarsson endurkjörnir. Þær nefndir sem starfa fyrir GA voru kynntar fyrir fundarmönnum og samþykktar. 

Þá tilkynnti Steindór kylfing ársins ásamt þeim kylfingi sem hlaut háttvísibikar GA árið 2020.

Veigar Heiðarsson fékk háttvísibikar GA árið 2020 en Veigar er hvetjandi, jákvæður og góður liðsfélagi. Hann er þekktur fyrir að hrósa og hvetja mótherjann áfram og hefur ávallt sýnt sannan íþróttaanda í mótum og er fyrirmynd fyrir aðra kylfinga. Hann náði afburðarárangri í sumar í sínu flokki þar sem hann varð bæði Íslandsmeistari í holukeppni og stigameistari. Veigar tók einnig þátt í Íslandsmótinu í golfi í fyrsta skiptið og var yngsti keppandinn til að komast inn á mótið án þess að fara á biðlista og hafði þar betur gegn föður sínum Heiðari Davíð. 

Lárus Ingi Antonsson var krýndur kylfingur ársins en hann er klúbbmeistari GA og náði hann 2. sæti í flokki 17-18 ára á Íslandsmóti unglinga í höggleik. Hann var hluti af liðum GA í Íslandsmóti golfklúbba, bæði í 1. deild karla og flokki 18 ára og yngri þar sem liðið varð í 3. sæti. Lárus var valinn í landslið 18 ára og yngri á þessu ári. Hann er samviskusamur, hefur góða leiðtogahæfileika og er öðrum kylfingum flott fyrirmynd. 

Þá veitti Steindór nokkrum GA félögum afreksmerki GA en það fá þeir sem hafa orðið klúbbmeistarar, Íslandsmeistarar eða valdir í landslið GSÍ á árinu. Nokkrir kylfingar höfðu ekki fengið merkið fyrir fyrri árangur og fengu því á þessum aðalfundi.
Ólafur Auðunn Gylfason - Akureyrarmeistari 2011
Ævarr Freyr Birgisson - Akureyrarmeistari 2014
Halla Berglind Arnarsdóttir - Akureyrarmeistari 2010
Stefanía Kristín Valgeirsdóttir - Akureyrarmeistari 2012
Stefanía Elsa Jónsdóttir - Akureyrarmeistari 2017
Marianna Ulriksen - Akureyrarmeistari 2018
Valmar Valjaots, Eiður Stefánsson, Jón Birgir Guðmundsson, Leifur Þormóðsson og Kjartan Fossberg Sigurðsson - Íslandsmeistarar golfklúbba eldri kylfinga 2020
Veigar Heiðarsson - Íslandsmeistari í holukeppni 14 ára og yngri 2020

Ekki var hægt að afhenda merkin að þessu sinni en verður það gert síðar.

Bjarni Þórhallsson formaður GA lauk síðan fundinum með stuttri ræðu og þakkaði fyrir liðið starfsár.

Við hjá GA erum ánægðir með þátttöku félaga á fundinum sem haldinn var í gegnum fjarfundarbúnað þetta árið og gekk mjög vel. Hlökkum við til ársins 2021 með okkar frábæru félögum.