Andrea Ýr keppir með stúlknalandsliði Íslands á EM í Slóvakíu

mynd: KMÞ
mynd: KMÞ

Andrea Ýr Ásmundsdóttir klúbbmeistari GA keppir fyrir Íslandshönd á EM í Slóvakíu með stúlknalandsliðinu þessa stundina. 

Stúlknalandslið Íslands í golfi hefur leik í dag á Evrópumóti áhugakylfinga sem fram fer á Borsa golfvellinum á Green Resort í Slóvakíu. Alls eru fjórtán þjóðir sem taka þátt en keppnin sem hefst í dag og lýkur 26. september. 

Fyrsta keppnisdaginn er leikinn höggleikur og komast 8 efstu þjóðirnar í A-riðil og keppa þar um Evrópumeistaratitilinn. Liðin sem enda í sætum 9-14 keppa í B-riðli. Í riðlakeppninni er leikinn einn fjórmenningsleikur og tveir tvímenningsleikir.

Íslenska liðið er skipað eftirtöldum leikmönnum:
Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, Andrea Ýr Ásmundsdóttir og María Eir Guðjónsdóttir. Gregor Brodie afreksstjóri GSÍ er þjálfari liðsins og Kristín María Þorsteinsdóttir er liðsstjóri.

Við óskum stelpunum góðs gengis og munum flytja frekari fréttir af árangri þeirra næstu daga.