Aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar var í gær

Í gær var haldinn aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar fyrir rekstrarárið 2019 og mættu þar ríflega 55 GA félagar á fundinn en á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Það var hann Ólafur Rúnar Ólafsson sem var kosinn fundarstjóri og stýrði hann fundinum af glæsibrag líkt og áður. Skúli Eyjólfsson var kosinn ritari og Bjarni Þórhallsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar, hóf fundinn á því að lesa skýrslu stjórnar og fór því næst Steindór Kristinn, framkvæmdarstjóri, yfir rekstrarárið ásamt því að fara yfir ársreikning klúbbsins fyrir 2019 og var hann samþykktur af fundargestum.

Hagnaður ársins nam 1.090.228kr eftir fjármagnsliði, samanborið við 530.620kr hagnað árið áður. Rekstrartekjur jukust um 17 milljónir á árinu eða um 12%, skuldir voru greiddar niður um rúmar 13 milljónir á árinu. Rekstrartekjur námu 152.200.750kr og rekstrargjöld voru 143.079.480kr með afskriftum 9.602.007kr og niðurfærslu viðskiptakrafna upp á 3.500.000kr.

EBITDA rekstrarársins var 22.000.000kr sem er rúm milljón jákvæðari en áætlun ársins 2019 var.

Borin var upp tillaga stjórnar um árgjöld fyrir 2020 sem var samþykkt. Lítil hækkun er á árgjöldunum fyrir næsta ár og verðskrá okkar má sjá á heimasíðu eða hér. Áfram bjóðum við þeim sem greiða árgjöldin sín fyrir 15. mars áfyllingu á kort á Klappir, æfingasvæði GA, paráfylling er innifalin í árgjaldi fyrir þá meðlimi.

Steindór fór yfir rekstaráætlun fyrir árið 2020 en í henni eru tekjur áætlaðar 162.000.000kr samanborið við 152.200.750kr árið 2018/2019. Gjöld eru áætluð 149.358.009kr samanborið við 143.079.480 árið áður.

Þá veitti Heiðar Davíð golfkennari GA háttvísisbikar GA ásamt því að kylfingur ársins var krýndur. Anton Þorsteinsson kom fyrir hönd barna- og unglinganefndar og veitti verðlaun fyrir GA deildina sem haldin var í sumar. Hann þakkaði kærlega fyrir góða þátttöku og hlakkaði til að gera deildina enn betri og flottari á komandi árum.

Starkaður Sigurðarson fékk háttvísisbikar GA árið 2019. Starkaður er hvetjandi liðsfélagi sem er óhræddur við að leita ráða og er gaman í kringum hann. Hann hefur bætt sig mikið þegar kemur að því að fóst við mótlæti út á velli og er öðrum til fyrirmyndar. Hann hefur allt til brunns að bera til að ná langt í íþróttinni. 

Örvar Samúelsson var kjörinn kylfingur GA fyrir árið 2019. Örvar var klúbbmeistari GA 2019 og hafnaði í 37. sæti á Íslandsmótinu í höggleik. Örvar er yngri kylfingum flott fyrirmynd en hann er að koma aftur inn í keppnisgolfið eftir smá pásu vegna meiðsla og barneigna. Við hjá GA erum ánægð með Örvar í sumar og hlökkum til að halda áfram að fylgjast með honum ná árangri í golfinu. 

Jón Steindór, varaformaður GA, kynnti verkefnið "Jaðar allt árið" þar sem horft er til uppbyggingar á inniaðstöðu GA á svæði Golfklúbbs Akureyrar. Kynninguna má sjá hér.

Því næst var komið að kosningu stjórnar en Bjarni Þórhallsson var endurkjörinn formaður GA en hann var einn í framboði. Tvö laus sæti voru í stjórn og voru þrír frambjóðendur sem gáfu kost á sér. Jón Steindór og Skúli gáfu áfram kost á sér ásamt Sturlu Höskuldssyni sem gaf kost á sér í aðalstjórn og einnig sem varamaður, því var kosið um tvö sæti á fundinum. Eftir kosningu var niðurstaðan sú að Skúli fékk 48 atkvæði, Jón Steindór 42 atkvæði og Sturla 16, það verða því þeir Jón Steindór og Skúli sem halda áfram í stjórn GA næstu tvö árin. Í kosningu varamanna gáfu Vigfús Ingi og Viðar áfram kost á sér ásamt Sturlu og fór það svo að Viðar fékk 44 atkvæði, Vigfús Ingi 41 atkvæði og Sturla 17. Viðar og Vigfús Ingi sitja því áfram sem varamenn í stjórn GA næsta árið. 

Í lok fundar voru þær nefndir sem starfa fyrir GA kynntar en uppstillinganefnd hafði raðað í þær, ekki komu fleir framboð til nefndarstarfa og má sjá allar nefndirnar á heimasíðu okkar eða hér.

Hér má síðan sjá myndir frá aðalfundinum. Aðalfundur GA 2019.