Aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar 2018

Í gær var haldinn aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar og mættu ríflega 80 GA félagar á fundinn en á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Ólafur Rúnar Ólafsson var valinn fundarstjóri og stýrði hann fundinum af glæsibrag, Skúli Eyjólfsson var ritari. Bjarni Þórhallsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar las skýrslu stjórnar og fór yfir atburði líðandi rekstrarárs ásamt því að fara yfir ársreikning  klúbbsins fyrir 2018 og var hann samþykktur. 

Mikill viðsnúningur var á rekstri GA á árinu en rekstrartekjur á árinu námu 135 millj. kr. sem er lækkun milli ára en þar ber helsta að nefna 8,5 millj.kr. frá Akureyrarbæ vegna lokagreiðslu uppbyggingasamnings vegna Klappa æfingasvæðis. Rekstrarkostnaður nam 125,9 millj.kr. sem er vel undir áætlun. EBITDA rekstrarársins var 16,6 millj.kr. Rekstrarniðurstaða reikningsársins eftir fjármagnsliði er jákvæð um 530.620.kr

Bjarni Þórhallsson var endurkjörinn sem formaður GA til eins árs og mun Eygló Birgisdóttir taka sæti í stjórn GA af Erni Viðari sem hættir eftir fjölmörg góð ár í stjórn klúbbsins. Vill stjórn GA koma þökkum til Örn Viðars fyrir óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins til fjölda ára. Þá var Vigfús Ingi Hauksson kosinn varamaður ásamt Viðari Valdimarssyni.

Stjórn GA fyrir komandi ár skipa því:

Bjarni Þórhallsson formaður
Jón Steindór Árnason varaformaður
Guðlaug María Óskarsdóttir gjaldkeri
Sigurður Skúli Eyjólfsson ritari
Eygló Birgisdóttir meðstjórnandi 
Varamenn:
Viðar Valdimarsson
Vigfús Ingi Hauksson

Tillögur stjórnar um árgjöld voru samþykktar með örlitlum hækkunum . Því ber þó að nefna að þeir kylfingar sem greiða árgjald sitt fyrir 15. mars fá inneign á Klöppum, æfingasvæði GA, sér að kostnaðarlausu.

Einnig voru veittar viðurkenningar á fundinum en Lárus Ingi Antonsson fékk afhent afreksmerki GA en Lárus Ingi varð Íslandsmeistari í holukeppni í flokki 15-16 ára á nýliðnu keppnistímabili og stundar golfíþróttinni af miklu kappi og er góð fyrirmynd fyrir iðkendur í klúbbnum.

Óskar Páll Valsson hlaut háttvísibikar GA fyrir 2018 en Óskar hefur verið gríðarlega vinnusamur í leik sínum undanfarið ár og er góð fyrirmynd út á velli sem og á æfingum. Hann æfir vel og er tilbúinn að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda, á nýliðnu keppnistímabili náði hann miklum framförum og er framtíðin björt fyrir þennan unga kylfing.

Andrea Ýr Ásmundsdóttir var valin kylfingur GA annað árið í röð en Andrea varð Íslandsmeistari í holukeppni í flokki 15-16 ára ásamt því að vera stigameistari í þeim flokki. Hún tapaði í bráðabana í 8 liða úrslitum í holukeppni á Eimskipsmótaröðinni gegn Íslandsmeistaranum og endaði í 9. sæti á Íslandsmótinu í höggleik. Frábær kylfingur sem á framtíðina fyrir sér.

 Hér má sjá myndir frá Aðalfundinum 2018