Aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar 2009

Tumi með háttvísisbikarinn
Tumi með háttvísisbikarinn
Aðalfundur GA var haldinn í kvöld að Jaðri.

Góð mæting var á fundinn. 

Formaður bað fundarmenn að minnast þeirra kylfinga sem fallið hafa frá á starfsárinu.

Í árskýrslu stjórnar var ítarlega gerð grein fyrir starfi síðasta árs og störfum nefnda klúbbsins. Ársskýrslu má lesa hér. 

Ársreikningur var samþykktur samhljóða svo og tillaga stjórnar að breyttum árgjöldum fyrir næsta ár. Ársreikning má sjá hér.

Hægt er að nálgast upplýsingar um árgjöld á heimasíðu GA.   

Hagnaður af rekstri klúbbsins var kr. 6.2 millj. fyrir fjármagnsliði en 2.7 millj. eftir fjármagnsliði. Tekjur voru 70.4 millj. og rekstrargjöld 64.1 millj. 

Halldór Rafnsson var endurkjörinn formaður ásamt stjórn, ein breyting var í varastjórn en Sveindís Almarsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu og í hennar stað kemur Halla Berglind Arnarsdóttir.

Veittar voru eftirfarandi viðurkenningar á fundinum, háttvísisbikarinn 2009 en hann er veittur þeim unglingi sem uppfyllir kröfur um háttvísi, prúðmennsku og framfarir í golfþíþróttinni, bikarinn hlaut Tumi Hrafn Kúld. Tumi fór að æfa golf af alvöru sumarið 2008 og í lok þess sumars var forgjöfin hans 29,2 - Í lok sumars 2009 var hann með 18,0 í forgjöf. Í sumar tók hann þátt í Norðurlandsmótaröðinni. Þar voru 4 mót og 3 bestu töldu til stiga. Í 1. móti lenti hann í 8. sæti, 2. mótið gaf 3.sæti, 4. og 5. mót 1. sæti og vann hann Norðurlandsmeistaratitilinn með 54 stig af 60 mögulegum. Tumi fór fyrir hönd GA í sveitakeppni 16 ára og yngri að Kiðjabergi – yngstur af hópnum. Í lok sumars keppti hann í liðakeppni AM-AM Þar var hann í sigurliðinu. Drengurinn  ökklabrotnaði mánuði fyrr en var kominn í göngugifs þegar mótið var. Hann var mjög svekktur yfir að geta ekki klárað golfsumarið almennilega þannig að hann fékk lánaðan golfbíl sem gerði það að verkum að hann gat verið með í mótinu og átti ekki færri holur en aðrir í liðinu. 

Þá var kylfingur GA 2009 kjörinn Andrea Ásgrímsdóttir, bikar þessi var veittur í fyrsta sinn haustið 2007. Hann er gefinn af Ómari Halldórssyni..

Andrea varð á árinu 2009 Íslandsmeistari kvenna 35 ára og eldri en það mót var haldið hér á Akureyri í júlí.

Andrea hefur stundað golfíþróttina frá barnsaldri og unnið marga sigra. Var meðal bestu í unglingameistaramótum fyrr á árum og unnið fjölda golfmóta í gegnum árin og hefur verið einn af máttarstólpum í gegnum árin í kvennasveit GA. Andrea hefur 6 sinnum orðið Akureyrarmeistari árin 1990,1994,1997,1999, 2000 og 2001. Nú síðustu ár hefur hún verið búsett erlendis og æft og stundað golf í Frakklandi. Andrea lauk golfkennaraprófi frá Golfkennaraskóla Íslands nú í vor.

 Hafþór Ingi Valgeirsson var annað árið í röð holumeistari GA. Í 2. sæti var Kjartan Sigurðsson og í 3. sæti Leanne Carol Leggett.

Á fundinum voru fjörlegar umræður um málefni líðandi stundar og starfsárið framundan. 

Fundarstjóri var Kristinn Svanbergsson og fundarritari Gunnar Vigfússon.