Aðalfundur GA var haldinn 10. desember

Aðalfundur GA var haldinn þann 10. desember síðastliðinn fyrir rekstrarárið 2025. Á fundinum voru hefðbundin aðalfundarstörf en það var hann Jón Steindór Árnason sem var kosinn fundarstjóri og Skúli Eyjólfsson var kosinn ritari. Bjarni Þórhallsson, formaður GA, hóf fundinn á því að fara með skýrslu formanns áður en Steindór Kristinn, framkvæmdarstjóri, fór yfir rekstrarárið ásamt því að fara yfir ársreikning klúbbsins fyrir árið 2025 og var hann samþykktur af fundargestum.

Hagnaður ársins nam 34.942.677kr. eftir fjármagnsliði samanborið við 18.758.503 kr. árið áður. Rekstartekjur voru rúmlega 355 milljónir og rekstrargjöld 303 milljónir með afskriftum upp á rúmlega 27 milljónir. EBITDA rekstrarársins var tæplega 80 milljónir.

Kosið var til stjórnar GA en engin mótframboð til stjórnar bárust kosningarnefnd fyrir fund og voru þeir Jón Steindór og Skúli kosnir áfram í stjórn og Finnur Bessi og Vigfús Ingi halda áfram sem varamenn í stjórn. Þá var Bjarni Þórhallsson endurkjörin formaður klúbbsins.

Þá var kosið um lagabreytingar sem lagðar voru fyrir af stjórn GA en þær voru samþykktar og má sjá breytingarnar hér.

Borin var upp tillaga stjórnar um árgjöld fyrir 2026 sem var samþykkt á fundinum. Hér má sjá verðskrá GA fyrir árið 2026. Eftirfarandi hlutir eru innifaldir í árgjaldi GA:

  • Ótakmarkað spil á Jaðarsvelli
  • Ótakmarkað spil á Dúddisen
  • Aðgangur að inniaðstöðu GA í Golfhöllinni
  • 20% afsláttur af kortum í golfhermi GA allt árið
  • Birdie áfylling á Klappir
  • 15% afsláttur af boltakortum á Klappir
  • GA félagar geta boðið með sér tveimur gestum á völlinn alla virka daga fyrir 7.500kr per kylfing
  • Aðgangur af golfbílakortum GA
  • Aðgangur af vinavöllum GA

Steindór fór yfir rekstraráætlun fyrir árið 2026 en í henni eru tekjur áætlaðar 399,5 milljónir samanborið við rúmar 355 á nýliðnu rekstrarári og gjöld áætluð 339,1 milljónir samanborið við 305 árið 2025. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða verði 35,4 milljónir og EBITDA upp á 91,4 milljónir árið 2026.

Undir önnur mál voru rædd ýmis mál svosem leikhraði, vallareftirlit, kennslu og fræðslu nýliða og innskráningu og staðfestingu á teig af félagsmönnum. GA leitar lausna til að gera fyrirkomulagið eins gott og hægt er fyrir félagsmenn sína, áfram í samvinnu við GSÍ og golfbox. 

Heiðar Davíð og Óli Gylfa, golfkennarar GA, veittu Háttvísisbikar GA og tilkynntu hverjir væru kven- og karlkylfingur GA ásamt kylfingi ársins.
Arnar Freyr Viðarsson fékk háttvísisbikar GA en Arnar Freyr er gríðarlega skipulagður og duglegur kylfingur sem setur sér skýr markmið til að vinna að og var árangur á liðnu áru eftir því. Hann var einn af fimm aðilum frá GA sem var valinn í landsliðshóp GSÍ nú í haust og erum við gríðarlega stolt af Arnari. 

Andrea Ýr Ásmundsdóttir er kvenkylfingur GA 2025 og er vel af því komin. Hún hafnaði í 3. sæti á Íslandsmótinu í holukeppni og í 15. sæti á Íslandsmótinu í höggleik. Hún var valin í kvennalið GSÍ sem tók þátt á EM í sumar og leiddi kvennalið GA í fjórða sæti í efstu deild á heimavelli í sumar þar sem hún vann alla sína leiki á mótinu. Andrea hefur undanfarin ár verið burðarstólpi í kvennastarfi okkar og er svo sannarlega frábær fyrirmynd fyrir aðra kylfinga klúbbsins.

Veigar Heiðarsson er karlkylfingur GA 2025 ásamt því að vera kylfingur GA en hann átti frábært sumar í golfinu. Veigar tók þátt í þremur mótum af sex sem telja inn á stigalista GSÍ en endaði samt í 8. sæti á listanum. Hann varð í 3. sæti á Íslandsmótinu í höggleik og datt út í 16 manna úrslitum á Íslandsmótinu í holukeppni á móti Íslandsmeistaranum eftir 23 holu leik þar sem Veigar var á sjö höggum undir pari. Veigar var valinn í karlalið GSÍ sem keppti á EM og spilaði með sveit GA á Íslandmsóti golfklúbba þar sem GA endaði í 4. sæti. Veigar tók þátt á St. Andres Links Trophy, The Amateur Championship og US Junior Open en hann var jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að fá boð á það sterka mót. Veigar fór í haust út í nám til East Tennessee á fullum golfstyrk og hefur leikið í öllum mótum það sem af er vetri fyrir sinn skóla. 

Þá hlutu sex kylfingar Afreksmerki GA en það fá þeir kylfingar sem verða Akureyrarmeistarar, Íslandsmeistarar eða eru valdir í landslið á árinu. Það voru þau Lilja Maren Jónsdóttir (Akureyrarmeistari) og Arnar Freyr Viðarsson, Ágúst Már Þorvaldsson, Egill Örn Jónsson, Finnur Bessi Finnsson og Patrekur Máni Ævarsson (Íslandsmeistarar golfklúbba í flokki 15-16 ára).

Einnig voru veitt silfur- og gullmerki GA á Aðalfundinum í ár en Silfurmerki GA hlutu þeir: Árni Árnason, Baldur Ingi Karlsson, Benedikt Guðni Gunnarsson, Björn Axelsson, Finnur Helgason, Jón Thorarensen, Ólafur Auðunn Gylfason, Sverrir Þorvaldsson og Tryggi Jóhannsson en þessir aðilar eiga það sameiginlegt að hafa unnið óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn í háa herrans tíð og þökkum við þeim kærlega fyrir. 

Einnig voru fimm Gullmerki GA veitt á fundinum en þeir aðilar hafa áður fengið silfurmerki og hafa þeir unnið í þágu klúbbsins undanfarin ár og hjálpað gríðarlega mikið við hin ýmsu verkefni. Þetta eru þau Halla Sif Svavarsdóttir, Heimir Finnsson, Karl Haraldur Bjarnason, Sigmundur Einar Ófeigsson og Viðar Þorleifsson.

Það var síðan Bjarni Þórhallsson formaður sem endaði fundinn á að þakka félagsmönnum traustið til sín og stjórnar GA undanfarin ár og hlökkum við mikið til ársins 2026 með okkar frábæru félagsmönnum.