Fréttir af aðalfundi 2012

Kristján Benedikt með háttvísisbikarinn
Kristján Benedikt með háttvísisbikarinn

Aðalfundir GA fór fram laugardaginn 24. nóvember.  Góð mæting var á fundinn, en fundarmönnum var boðið upp á súpu og brauð áður en formleg dagskrá hófst.  Eftirfarandi er það helsta sem fram fór á fundinum.

Skýrsla stjórnar

Í skýrslu stjórnar er ítarlega gerð grein fyrir starfi síðasta árs og störfum nefnda klúbbsins. Formaður fór yfir það helsta sem gert var á árinu og helstu afrek kylfinga. Þakkaði hann öllum þeim sem lyftu grettistaki í vetur og vor eftir mikið erfiðleikaár 2011 en með samhentu átaki var unnið mikið og gott starf við að koma vellinum í gott stands og efla okkar góða orðspor enn meir. „Þetta hefði ekki áunnist nema með miklu og óeingjörnu sjálfboðastarfi, öflugu fólki í nefndum sem og góðu starfsfólki að ógleymdum jákvæðum GA félögum“ var meðal þess sem fram kom í máli formanns.

Tengt efni: Skýrsla stjórnar 2012

Rekstur ársins

Ársreikningur var samþykktur samhljóða svo og tillaga stjórnar að breyttum árgjöldum fyrir næsta ár. Í rekstri klúbbsins gekk vel að auka tekjur, en þær jukust um rúmar 13 milljónir milli ára, eða um 20%, og voru tæpar 76 milljónir.  Sá tekjuauki var að stærstum hluta nýttur til að vinna að framförum á vellinum, sem mun nýtast vel á komandi árum.  Niðurstaðan af rekstri ársins var svipuð og á síðasta ári, tap upp á um 2.2 milljónir fyrir fjármagnsliði en 4.7 milljónir eftir fjármagnsliði.  Er þessi niðurstaða í takt við áætlanir stjórnar, sem gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti í tekjum og verulega jákvæðari afkomu á næsta ári.

Tengt efni: Ársreikningur 2012.

Stjórnarkjör

Sigmundur Ófeigsson var endurkjörinn formaður.  Aðrir í aðalstjórn verða Jón Steindór Árnason varaformaður, Guðlaug María Óskarsdóttir gjaldkeri, Ingi Torfi Sverrisson ritari og Örn Viðar Arnarson meðstjórnandi. Í varastjórn verða Gunnar Vigfússon og Halla Berglind Arnarsdóttir

Viðurkenningar

Kylfingur GA 2012: Stefanía Kristín Valgeirsdóttir

Kylfingur ársins þarf að hafa sýnt góðan árangur og framfarir á árinu – ásamt því að vera á meðal fremstu kylfinga landsins á hverjum tíma með tilliti til mótaraðarinnar og stórmóta á vegum Golfklúbbsins. Stefanía er vel að þessum titli kominn en auk þess að hafa verið sigursæl hér norðan heiða síðastliðið sumar þá hefur hún verið sjálfri sér og klúbbnum til sóma með því að leggja hart að sér við æfingar. Hún kemur vel fyrir innan sem utan vallar. Stefanía Kristín er Akureyrarmeistari  GA 2012 og Norðurlandsmeistari 2012. Til marks um staðfestu og dugnað Stefaníu þá lét hún þann draum rætast að fara erlendis og æfa og spila golf samhliða háskólanámi. Hún fékk bæði íþróttastyrk og námsstyrk í Pfeiffer University í Norður-Karólínu og mun hún spila fyrir golflið skólans, Stefanía hyggst leggja stund sjúkraþjálfun og líffræði.

Háttvísisbikar GA 2012: Kristján Benedikt Sveinsson

Bikarinn er veittur þeim unglingi sem uppfyllir kröfur um háttvísi, prúðmennsku og framfarir í golfþíþróttinni. Við hér í golfklúbbi Akureyrar getum verið stolt af okkar yngri iðkendum, þar eigum við breiðan hóp ungra fyrirmyndarkylfinga og valið því ákveðið lúxusvandamál. Bikarinn að þessu sinni hlaut Kristján Benedikt Sveinsson. Kristján er öðrum góð fyrirmynd hvort heldur er í keppni eða leik og stundar sínar æfingar af mikilli samviskusemi, kemur ávallt vel fyrir og er duglegur að æfa sig. Auk þess sem hann hefur metnað til að ná langt í íþróttinni, sumarið sem leið voru helstu afrek þessa unga golfara eftirfarandi. Akureyrarmeistari 14 ára og yngri. Norðurlandsmeitari 14 ára og yngri. Unglingalandsmótsmeistari 13 ára og yngri. Hann var í 3. sæti á GSÍ mótaröð 14 ára og yngri, ennfremur var hann valin yngstur allra í afreksbúðir GSÍ.

Afreksmerki GA 2012: Bjarni Ásmundsson, Sigurður H Ringsted og Þórir V Þórisson

Bjarni Ásmundsson, Sigurður H Ringsted og Þórir V Þórisson fengu afreksmerki klúbbsins en þeir voru í sigursveit GA sem urðu íslandsmeistarar á Flúðum í sumar. Aðrir í sveitinni höfðu áður fengið afreksmerki klúbbsins.

Holumeistari GA 2012: Helgi Rúnar Bragason

Viðurkenning var afhent fyrir holumeistara klúbbsins. Holumeistari GA 2012 var Helgi Rúnar Bragason og Björn Auðunn Ólafsson varð í 2. sæti.

Þröstur Guðjónsson formaður ÍBA ávarpaði fundinn og færði kveðjur frá stjórn ÍBA og þakkaði fyrir góðan rekstur og óskaði klúbbnum góðs gengis í framtíðinni.

Fundarstjóri var Árni Magnússon og fundarritari Ingi Torfi Sverrisson.