Áætlun um að kaupa nýjan Trackman

Ágætu GA félagar.

 Stjórn GA hefur mikinn hug á því að fjárfesta í öðrum Trackman.  Við erum sem stendur með tvo golfherma núna og er annar þeirra Protee golfhermir.  Hann er því miður ekki mikið notaður og hafa fjölmargir GA félagar komið að máli við okkur og sagt frá því að lítill áhugi sé fyrir því að fara í hann þar sem gæðin í Trackman E6 golfherminum séu það góð og í raun ekki samanburðarhæf.

Við höfum því farið af stað og fengið tilboð í nýjan Trackman með E6 golfhermi. Slíkt tæki kostar rúmar fjórar milljónir króna og er staðan þannig núna að það er ekki fjárfesting sem GA getur farið í upp á sitt sjálfsdæmi.  Því datt okkur í hug að leita til ykkar ágætu GA félagar.  Hugmyndin er að bjóða til sölu kort, „ fjármögnunarkort til kaupa á nýjum Trackman“.  Kortin munu kosta 60.000 krónur og innihalda 34 klst í golfherminum sem útleggjast sem rétt tæplega 1800 krónur klukkustundin.  Einnig er hægt að kaupa kort sem innihalda allt frá 20 klst upp í 60 klst.  20 klst kort kostar 40 þúsund krónur og 60 klst kort kostar 100 þúsund krónur.

 Til þess að fara í þessi kaup þurfum við að selja kort fyrir 3 milljónir króna.  Búið er að ganga frá því að tækið getið verið komið til Íslands á ca tveimur vikum og því ekkert því til fyrirstöðu að hefja leik í nýjum Trackman strax í byrjun árs.  Ekki verður farið af stað í þessa fjárfestingu nema að náist að safna fyrir henni áður.

 Sá Trackman sem við erum núna með er mikið notaður í golfkennslu, bæði fyrir okkar börn og unglinga sem og almenna kennslu og verða tímar í honum því af skornum skammti frá janúar og fram að vori.

 Er það von okkar að GA félagar taki vel í þetta þar sem þarna er á ferðinn einstakt tilboð til að kaupa sér tíma í fullkomnasta golfhermi landsins á frábæru verði.

 Áhugasamir vinsamlegast hafi samband við Ágúst í síma 8577009 eða við Sturlu í síma 8684785