25. Arctic Open mótið sett

132 kylfingar skráðir til leiks
Arctic Open golfmótið var sett á Jaðarsvelli á Akureyri í dag kl. 13.00. Arctic Open er alþjóðlegt golfmót sem hefur verið haldið frá árinu 1986 og hafa á fjórða þúsund innlendir og erlendir gestir látið drauminn rætast og tekið þátt í mótinu. Keppendur eru sammála um að það sé einstök upplifun að spila golf í blóðrauðu sólarlagi um miðnæturbil svo nærri heimskautsbaugi. Þetta mót núna 2011 er það 25.

Flugfélag Íslands er aðal samstarfsaðili G.A. um framkvæmd mótsins. Um 130 þátttakendur eru skráðir til leiks í ár, aðeins færri en í fyrra og munar þar um minni þátttöku erlendra kylfinga en í fyrra, nú eru 19 erlendir kylfingar frá 6 þjóðlöndum. 

Verðlaun eru frá Flugfélagi Íslands, NTC verslununum og heildverslun Rolf Johansen, Golfbúðinni í Hafnarfirði, Ecco og hvalaskoðun fyrir 2 með Sjósiglingu í Reykjavík, auk þess sem allir þátttakendur fá sérstaka teiggjöf.  Eins og áður sagði þá var mótið sett kl. 13.00 þar sem boðið var upp á hlaðborð með norðlenskum veitingum.  Sérstök áhersla er lögð á að kynna afurðir frá Eyjafjarðarsvæðinu.

Sú nýbreytni verður á mótinu í ár að helmingur keppenda er ræstur út kl. 16.00 frá öllum teigum og er síðan seinni helmingur keppenda ræstur út kl. 21.30 og er fyrirhugað að spilað sé til kl. 02.00 báða dagana. Eftir sem áður er leikið eftir Stableford punktakerfi með og án forgjafar auk þess sem verðlaun eru veitt fyrir bestan árangur í kvenna- og öldungaflokki án forgjafar. Samhliða leik er spiluð liðakeppni. Fjórir eru saman í liði og valið er í liðin af handahófi.

Áður en keppni hófst var haldin mikil "Drive" keppni og reyndu þeir með sér Örvar Samúelsson ríkjandi "Drive" meistari Íslands, Ólafur Gylfason golfkennari í GA, Jeffrey R. McPherson, Jeffery L. Whitman og Finnur Aðalbjörnsson verktaki á Akureyri - Örvar átti lengsta höggið 258 metra á mótri nokkuð sterkri norðanátt, Jeffery sló 238 m. Keppendur fengu 3 tilraunir. Fengu nokkrir síðan að spreyta sig og sló Jón Viðar Þorvaldsson 237 metra og átti með því 3. lengsta höggið.

Lokahóf Arctic Open er síðan á laugardagskvöld. Þar mun Jón Vídalín matreiðslumeistari bjóða veislumat unninn úr hráefnum frá sjávarútvegs- og matvælafyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu. 

Eins og undanfarin ár verður efnt til fjáröflunarleiks á 18. holu vallarins og er tilgangurinn að safna fé til styrktar góðu málefni. Að þessu sinni rennur féð til styrktar unglingastarfi Golfklúbbs Akureyrar.

Veðurfar og aðstæður hafa verið einstaklega óhagstæð í vetur og undanfarnar vikur verið mjög kaldar svo gróður hefur verið seinn til, en þessa dagna er Jaðarsvöllur farinn að taka við sér og verður betri með hverjum deginum sem líður. Starfsmenn að Jaðri hafa unnið hörðum höndum að því að koma vellinum í gott horf.

Veðurspáin lofar okkur góðu og björtu veðri svo miðnætursólin ætti að verða á sínum stað