175 hringir á dag á Jaðarsvelli!

Við munum nú birta nokkra tölfræðimola um spilun á Jaðarsvelli í sumar hér á heimasíðu okkar.

Eftir gríðarlega stór sumur 2020 og 2021 voru spilaðir hringir á Jaðarsvelli færri í ár en undanfarin tvö ár. Fjöldi skráðra hringja á vellinum í ár voru 25.326 hringir sem er það þriðja mesta frá því að talningar hófust en fleiri hringir voru spilaðir 2020 og 2021. Þó voru að meðaltali 175 hringir spilaðir á dag í ár sem er það næst mesta frá upphafi talninga. Í júní, júlí og ágúst voru spilaðir að meðaltali 200 hringir. 

Völlurinn var opinn í 146 daga í sumar sem eru færri dagar en undanfarin ár en hann var opnaður 15. maí. Veðrið var ekki eins gott og síðasta sumar og mátti sjá að hinn íslenski ferðamaður fagnaði því að geta loksins kvatt hömlurnar sem fylgdu Covid-19 faraldrinum og fóru erlendis í golfferðir. 

Við viljum halda áfram að biðla til GA félaga að skrá sig á teig en það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur til að við getum haldið sem best utan um tölfræðina á Jaðarsvelli.