Um helgina fór fram Íslandsmót golfklúbba 12 ára og yngri og 19-21 árs.
GA var eins og áður hefur komið fram með tvær sveitir í 12 ára og yngri, eina í hvítu deild (efstu deild) og aðra í gulu deild (næst efstu deild) og svo var GA með eina sveit í flokki 19-21 árs.
Strákarnir okkar gerðu sér lítið fyrir og unnu hvítu deildina með glans! Þeir sigruðu fjóra leiki og gerðu eitt jafntefli og voru verðskuldaðir sigurvegarar. Sveitina skipuðu þeir Arnar Freyr Viðarsson, Ágúst Már Þorvaldsson, Baldur Sam Harley og Egill Örn Jónsson. Þá voru ungu strákarnir okkar í gulu deildinni frábærir en þeir enduðu í 2. sæti eftir að hafa unnið tvo leiki og tapað einum, sveitina skipuðu þeir Askur Bragi Heiðarsson, Axel James Wright, Bjarki Þór Elíasson, Bjarni Sævar Eyjólfsson og Kristófer Áki Aðalsteinsson.
Frábær árangur hjá ungu strákunum okkar og það er ljóst að framtíðin í GA er björt.
Þá höfnuðu strákarnir okkar í 5. sæti í 19-21 árs flokknum þar sem sameiginlegt lið GS og GO sigraði. Sveit okkar manna skipuðu þeir Gunnar Aðalgeir Arason, Mikael Máni Sigurðsson, Óskar Páll Valsson, Patrik Róbertsson og Veigar Heiðarsson.