6 úr GA komust í gegnum niðurskurð á Íslandsmótinu

Eyþór spilaði frábæran hring í gær
Eyþór spilaði frábæran hring í gær

Annar dagur Íslandsmótsins í golfi fór fram í gær föstudag, þetta var mikilvægur hringur fyrir okkar fólk vegna þess að niðurskurður er í mótinu eftir tvo keppnishringi þar sem 70 leikmenn komust áfram í karlaflokki og 20 í kvennaflokki. Þeir sem komust snemma út í gær fengu fínasta veður í Mosfellsbænum en þegar leið á fór að rigna og bætti aðeins í vindinn.

Í karlaflokki voru það fimm kylfingar sem komust ekki í gegnum niðurskurðinn en þó stóð það tæpt hjá sumum. Örvar Samúelsson endaði +15 eftir fyrstu tvo hringina og var aðeins einu höggi frá því að komast í gegn. Lárus Ingi átti erfiðan dag í gær þar sem hann spilaði á 87 höggum en hann og Heiðar Davíð enduðu á +17 eftir tvo daga. Þar á eftir voru Óskar Páll (+21) og Sturla (+22) sem luku leik eftir 2 hringi en þeir koma bara sterkari inní næsta mót.

Það komu hinsvegar líka flott skor hjá strákunum og má þar helst nefna Eyþór Hrafnar en hann spilaði á 68 höggum sem var einmitt nýtt vallarmet en það stóð ekki svo lengi þar sem Bjarki Pétursson gerði gott betur og spilaði á 66 seinna um daginn. Eyþór situr nú í 5. sætinu og er 4 höggum frá efsta manni þannig hann er í góðri stöðu. Ævarr spilaði einnig vel í gær (71) en hann lenti í því að fá tvo erni í röð á hringnum og situr í 27. sæti. Víðir Steinar átti fínasta hring í gær (75) og situr í 47. sæti. Einnig voru það þeir Mikael Máni (64. sæti) og Veigar Heiðarsson (67. sæti) sem komust í gegnum niðurskurðinn en þeir rétt hengu yfir niðurskurðinum, gaman fyrir þessu ungu stráka að fá að spila alla fjóra hringina.

Í kvennaflokki náði Stefanía Kristín að bæta sig um 8 högg milli daga en það dugði ekki til að komast í gegnum niðurskurðinn. Andrea Ýr spilaði hinsvegar á 79 höggum, komst því í gegnum niðurskurðinn og situr nú í 13. sætinu.

Höldum áfram að fylgjast með okkar fólki í Íslandsmótinu og vonum að þau haldi áfram að sýna hvað í þeim býr.