Söguágrip GA

Golfklúbbur Akureyrar var stofnaður 19. ágúst 1935 og er næst elsti golfklúbbur landsins. Frumkvöðull að stofnun klúbbsins var Gunnar G. Schram sem var jafnframt fyrsti formaður klúbbsins. Fyrst um sinn fékk klúbburinn aðstöðu á gleráreyrum þar sem seinna meir varð að staða Slippstöðinnar. Þar var komið upp 6 holu golfvelli og var fyrsta meistaramót GA haldið árið 1938. Síðar, árið 1945, fékk klúbburinn aðstöðu sunnan og ofan við Menntaskólann á Akureyri, við Þórunnarstræti, og var gerður þar 9 holu völlur. Allt fram til ársins 1970 var GA við Þórunnarstræti en það er á fékk klúbburinn þá aðstöðu sem við þekkjum hvað best, að Jaðri og þar var byggður 9 holu golfvöllur. Árið 1981 var völlurinn síðan stækkaður upp í 18 holur. 

Golfklúbbur Akureyrar hefur allt frá upphafi hans verið einn helsti golfklúbbur landsins og haldið fjölmörg Íslandsmót, síðast árið 2021, ásamt því að halda stór alþjóðleg golfmót en þar má einna helst nefna Arctic Open sem hefur verið haldið síðan 1986.