Fyrirkomulag móta

GA heldur árlega margar tegundir golfmóta, sem skipt eru niður í ákveðna flokka.  Almenn mót eru opin öllum félagsmönnum golfklúbba innan GSÍ, en innanfélagsmót eru aðeins opin félögum í GA.  Kvennamót eru eins og nafnið gefur til kynna aðeins opin konum og herramót aðeins körlum.  Öldungamót eru fyrir kylfinga sem hafa náð ákveðnum aldri. Fyrirkomulag móta getur verið ýmiskonar, en eftirfarandi eru þau algengustu:

Höggleikur

Höggleiksmót fara þannig fram að högg keppenda eru talin og sá keppandi sem slær fæst högg sigrar.  Höggafjöldi er iðulega miðaður við par viðkomandi vallar, þannig að leikmaður sé undir pari, á pari, eða yfir pari.  Höggleikur er einnig leikinn með forgjöf, en þá er vallarforgjöf dregin frá höggafjölda. Iðulega þegar kylfingar eru jafnir í höggleik er leikinn bráðabani nema annað sé tekið fram í keppnisskilmálum.

Stærsta höggleiksmót GA er Akureyrarmótið (Meistaramót GA), þar sem klúbbmeistarar eru krýndir.  

Punktakeppni

Punktakeppni fer þannig fram að punktar kylfinga eru taldir á hverri holu og sá sem fær flesta punkta á hringnum sigrar.  Punktarnir eru þannig reiknaðir á hverri holu að einn punktur fæst fyrir skolla (bogie), tveir fyrir par, þrír fyrir fugl (birdie), fjórir fyrir örn (eagle) o.s.frv.  Algengast er að punktakeppni sé spiluð með forgjöf, þó punktakeppni án forgjafar sé einnig þekkt.  Aðeins kylfingar með virka forgjöf geta unnið til verðlauna í punktakeppni með forgjöf.

Verði tveir eða fleiri jafnir í verðlaunasæti í punktakeppni þá skal reikna punktafjölda á seinni 9 holunum (10-18). Verði enn jafnt skal reikna högg á síðustu 6 holunum, þá 3.,2., og 1.  Verði enn jafnt skal skal varpa hlutkesti.

Mörg mót með þessu fyrirkomulagi eru á mótaskrá GA.

Holukeppni

Í holukeppni keppa tveir einstaklingar (tvímenningur) eða tvö lið (fjórmenningur) þar sem sá vinnur sem vinnur fleiri holur á hringnum. Í holukepnni getur leikurinn klárast áður en hinar hefðbundnu 18 holur hafa verið leiknar, því staðan getur verið þannig að annar einstaklingurinn eða liðið geta átt fleiri holur en fjöldi þeirra holna sem eftir eru.  

Árlega er krýndur holumeistari GA, en keppnin teigir sig yfir stærstan hluta sumarsins.  Sveitakeppni GSÍ er einnig spiluð eftir þessu fyrirkomulagi, en GA sendir sveitir bæði í flokki fullorðinna og unglinga.

Texas Scramble

Í Textas Scramble leika tveir leikmenn saman í liði.  Leikurinn fer þannig fram að báðir leikmenn slá af teig og velja síðan betra teighöggið.  Því næst slá báðir af þeim stað og velja svo aftur betra höggið.  Þannig gengur leikurinn þar til einn bolti er kominn í holuna.  Texas Scramble er oft spilað með forgjöf og hefur fyrirkomulagið notið mikilla vinsælda á undanförnum árum, enda eru mörg af fjölmennustu mótum golfklúbba einmitt Texas Scramble mót.  

VerslunarmannahelgarBOMBA GA er vinsælt mót sem spilað er eftir þessi fyrirkomulagi. 

Betri bolti

Tveir leikmenn leika saman í betri bolta.  Báðir leika sínum bolta á hverri holu eins og um hefðbundinn höggleik eða punktakeppni sé að ræða.  Hins vegar er aðeins betra skorið á hverri holu skráð á skorkortið og kemur þaðan heitið Betri bolti.  Líkt og Texas Scramble er þetta mjög vinsælt fyrirkomulag, þar sem hjón, vinir og fleiri nýta tækifærið til að spila gott golf í góðum hópi. 

Í Volkswagen Open, sem er eitt stærsta mót GA á hverju ári, er spilaður Betri bolti.

Greensome 

Tveir leikmenn leika saman í greensome. Báðir slá af teig og velja síðan betra teighöggið. Eftir það er slegið til skiptist, sá sem átti teighöggið sem var ekki valið slær þá annað höggið og svo koll af kolli þangað til leikmenn klára holuna.