Skemmtisaga frá Jaðri

Okkur barst skemmtileg saga nú um helgina frá kylfing hér fyrir norðan og máttum við til með að deila henni með ykkur, gefum Jóhanni orðið:

 

„Sannarlega getur nú margt skondið og skemmtilegt skeð í golfi. Það sannaðist vel þegar ég var að spila á Jaðarsvelli á Akureyri í dag. Á 2.braut átti ég högg í átt að holu (eða það átti að stefna þangað!) en eins og stundum gerist lenti kúlan nokkuð til hliðar við holuna, framan við grjótmel og skoppaði kúlan upp í melinn. Þegar ég kom svo að melnum til að finna kúluna tóku á móti mér tjaldahjón og höfðu hátt eins og þeir fuglar eiga til. Ég varð hins vegar steinhissa þegar ég sá ástæðuna. Kúlan hafði rúllað alla leið inn í hreiðrið þeirra og var snyrtilega við hlið þriggja eggja sem voru stráheil! Tjaldurinn gerði heiðarlega tilraun til að leggjast ofan á eggin og kúluna en var hundfúll með þessa óumbeðnu viðbyggingu í hreiðrinu. Og hafði hátt þegar ég tók síðan kúluna úr hreiðrinu en lagðist snarlega á eggin þegar ég sló kúluna og kom mér í burtu. Ég hef fengið fugl í golfi en aldrei þrjú egg og tjaldapar.“

kv.
Jóhann Ólafur Halldórsson
Félagi í GA
(þetta var fyrsti hringurinn eftir að ég gekk í klúbbinn í vikunni. Hef þó spilað völlinn áður.)