Nýjar 5. og 6. brautir

Nýjar 5. og 6. brautirÍ sumar hefur verið unnið að útfærslu á tveimur nýjum brautum norðan við völlinn, sem munu verða númer 5 og 6 þegar framkvæmdum lýkur.  Á sama tíma falla núverandi brautir 8 og 9 út úr skipulagi vallarins, en á því svæði verður æfingasvæði klúbbsins í framtíðinni, ásamt 6 holu æfingavelli.  Eftirfarandi eru stuttar lýsingar á þessum nýju brautum.

5. braut

5. brautin nýja verður tiltölulega stutt par 4 hola (um 260m af gulum og rúmir 200m af rauðum teigum) sem liggur upp í móti til vesturs.  Kylfingar munu standa frammi fyrir skemmtilegri ákvörðun i teighögginu, en i því verður val um að reyna að slá alla leið á flöt, eða slá styttra og leggja upp að læk sem liggur meðfram brautinni og í gegnum hana fyrir framan flötina.  Glompur verða hægra megin og fyrir aftan flötina, auk einnar brautarglompu.

6. braut

6. brautin verður einnig par 4, en mun lengri en sú 5. (tæpir 400m af gulum og tæpir 300m af rauðum).  Hún liggur niður í móti til austurs, þar sem talsverð fallhæð verður í teighögginu.  Talsverð hætta verður hægra megin við brautina, þar sem trjágróður er áberandi.  Vinstra megin við brautina verður glompa, auk tveggja glompa hægra megin við braut nær flötinni.  Flatarstæðið er einstaklega fallegt, þar sem gróður og tjörn setja sterkan svip á umhverfið.

Um er að ræða tvær glæsilegar brautir sem auka fjölbreytni Jaðarsvallar og bætir heildarmynd vallarins. Stefnt er að því að hægt verði að opna brautirnar sumarið 2015.