4. braut

4. braut að Jaðri eftir breytingarNú eru hafnar framkvæmdir við fjórðu braut á vellinum okkar.  Í framkvæmdunum felst endurnýjun á flötinni og umhverfi hennar, þ.m.t. tjörn, glompu o.fl.  Eins og oft hefur komið fram er fjórða holan þekktasta hola vallarins, en margir telja hana eina af bestu holum landsins.  Þess vegna er mikilvægt að við vöndum sérstaklega vel til verks við endurnýjun hennar.  Eftirfarandi er lýsing á framkvæmdinni, kostnaði við hana og hvernig við munum spila holuna meðan á framkvæmdum stendur.

Áhersla er lögð á að breytingar séu þannig úr garði gerðar að þær hafi lítil áhrif á heildarmynd holunnar, m.ö.o. á hún að halda sínum sérkennum.  Áfram verður tjörn á holunni, en hún verður stærri og aðeins vinstra megin.  Glompa verður aftan við flötina, sem m.a. hefur það hlutverk að taka við vatni sem kemur úr brekkunni norðan og vestan við flötina í leysingum.  Á myndinni til hægri má sjá teikningu á fjórðu brautinni eftir breytingar, séð frá nýja teignum sem gerður var á síðasta sumri samhliða framkvæmdum við nýja fyrstu flöt.  Til að stækka myndina þarf að smella á hana.

Meðan á framkvæmdum stendur verður fjórða holan spiluð inn á nýju fyrstu flötina.  Þannig tryggjum við að sem minnst rask verði á spili meðan á framkvæmdinni stendur.  Gerð verður snyrtileg gönguleið frá nýju fyrstu flötinni að fimmta teignum.

Þar sem þetta er 13. flötin sem er endurnýjuð á vellinum býr starfsfólk klúbbsins og samstarfsaðilar okkar að mikilli reynslu við verkefni sem þetta.   Byrjað verður í annarri viku febrúarmánaðar að undirbúa undirlag flatar, grafa tjörn, drenskurði o.fl.  Þegar nær dregur vori verður flötin mótuð og í kjölfarið verður allt svæðið þakið og öðrum frágangi lokið.  Stefnt er að því að lokahönd verði lögð á framkvæmdina í fyrri hluta júní og að spilað verði inn á nýja flöt í Arctic Open.  Þó verður að setja fyrirvara við þá dagsetningu ef tíðin verður okkur óhagstæð.

Um nokkuð stóra framkvæmd er að ræða og þess vegna er kostnaður við hana umtalsverður.  Það sem leiðir til þess að þessi framkvæmd er dýrari en margar aðrar sem áður hefur verið farið í er m.a. að tjörn er við flötina, mikil vinna verður lögð í dren til að tryggja að vatn eigi greiða leið út af svæðinu o.fl.   Samkvæmt kostnaðaráætlun verksins mun það í heild kosta á bilinu 8,5 til 9 milljónir.

Að verkefninu loknu verður það gert upp og borið saman við ofangreinda áætlun.  Niðurstaða þess samanburðar er mikilvæg fyrir þann lærdóm sem draga má af framkvæmdum sem þessum og nýta má við framkvæmdir til framtíðar.