Sturla Höskuldsson ráðinn golfkennari

Golfklúbbur Akureyrar hefur samið við Sturlu Höskuldsson um að hann verði næsti golfkennari hjá GA. Tekur hann við af Brian Höjgaard Jensen sem lætur af störfum í lok janúar næstkomandi. 

Sturla er 39 ára gamall og hefur undanfarin fimm ár starfað sem golfkennari í Svíþjóð með góðum árangri, m.a. hjá Torreby Golfklubb þaðan sem hann stóð sig mjög vel og mikil ánægja var með hans störf. Þar á undan starfaði hann meðal annars hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, Golfklúbbnum Odd og Golfklúbbi Fljótsdalshéraðs.  Sturla útskrifaðist úr golfkennaraskóla Íslands árið 2009 með alþjóðlega PGA golfkennaragráðu.

"Ég er gríðarlega spenntur fyrir starfinu og það verður gaman að koma og kynnast félögunum í klúbbnum.  Það eru greinilega mjög spennandi tímar framundan hjá GA, æfingaaðstaðan er í mikilli uppbyggingu og verður í hæsta gæðaflokki, jafnt úti sem inni, með tilkomu nýja æfingasvæðisins.  Það verður sérstaklega skemmtilegt að þróa áfram afreks-, barna- og unglingastarfið af krafti.  Ég er sannfærður um að þekking mín og reynsla sem golfkennari muni nýtast vel í starfinu og að ég geti hjálpað kylfingum GA, á öllum aldri og getustigum, að ná sem allra lengst.  Við fjölskyldan erum virkilega spennt yfir því að flytjast heim núna í vor, eftir 5 ára dvöl í Svíþjóð og erum sannfærð um að okkur muni líða mjög vel á Akureyri."

Sturla mun hefja störf hjá GA í byrjun febrúar á næsta ári og stýrir starfinu fyrst um sinn frá Spáni þar sem hann býr núna.  Hann flytur svo  til Akureyrar ásamt eiginkonu sinni, Kristínu Hólm og 1 árs gamalli dóttur í lok mars.

Bjóðum við Sturlu velkomin í GA og hlökkum til samstarfsins.