Orðuveitingar í afmælishófi GA

Haraldur, Anna Freyja, Rósa og Halldór
Haraldur, Anna Freyja, Rósa og Halldór

Golfklúbbur Akureyrar átti stórafmæli þann 19. ágúst síðastliðinn og í tilefni af því var slegið upp veislu í gær sunnudaginn 30. ágúst.

Dagurinn byrjaði á golfmóti þar sem sáust mörg glæsileg skor og hún Stefanía Elsa gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 18. braut.

Að móti loknu var svo heljarinnar afmælisveisla og mættu rúmlega 150 manns og fögnuðu með afmælisbarninu.

Af þessu tilefni var þremur GA félögum og einum velunnara klúbbsins afhent gull og silfurmerki klúbbsins.

Silfurmerki Golfklúbbs Akureyrar fengu þær Anna Freyja Edvardsdóttir og Aðalheiður Rósa Gunnarsdóttir.  Þær hafa verið félagar í GA til langs tíma og ávallt verið reiðubúnar til að aðstoða og hjálpa klúbbnum sínum þegar að svo ber við, hvort sem það er t.d  á vinnudögum eða í  kakó tjaldinu  í Arctic open.  Það er klúbb eins og okkar gríðarlega mikilvægt að hafa konur eins  og Önnu Freyju og Rósu og hefur í gegnum árin ávallt verið hægt að leyta til þeirra til þess að aðstoða klúbbinn sinn. Báðar hafa þær staðið vaktina í gegnum árin á því uppbyggingarstarfi sem verið hefur í kvennastarfinu hjá GA og eiga mikinn heiður skilið fyrir það góða kvennastarf sem er til staðar hér á Jaðri í dag. 

Haraldur Sigurðsson er einn af þeim mönnum sem hefur verið ötull í stuðningi sínum við Golfklúbb Akureyrar. Hann sá lengi um að skrá skortöfluna í mótum félagsins, hann stofnaði golfmót bankanna hér á Akureyri sem nú heitir golfmót Fjármálafyrirtækja á Akureyri, hann stofnaði einnig golfmót Oddfellowfélaga á Akureyri. Haraldur hefur haldið utan um allt sem kemur að sögu klúbbsins. Þegar forustumenn GA hafa þurft að minnast fallinna félaga hefur það verið viðhvæðið að hafa samband við Harald og fá hjá honum upplýsingar um viðkomandi. Það er engin launung að klúbburinn stendur í mikilli þakkarskuld við Harald vegna alls þess efnis sem hann hefur haldið utan um og að sagan sé rétt skráð. Var Haraldur sæmdur gullmerki Golfklúbbs Akureyrar.

Halldór Rafnsson fyrrverandi formaður Golfklúbbs Akureyrar.  Halldór var formaður í rétt tæp 10 ár en hefur unnið ötullega fyrir klúbbinn í talsvert lengri tíma.  Halldór var formaður GA þegar samningar náðust við Akureyrarbæ um uppbyggingu og endurbætur á Jaðri sem við erum að sjá fyrir endan á núna, og á hann stóran þátt í þeirri glæsilegu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað.  Það er ekki sjálfgefið að golfklúbbur fái slíkan styrk líkt og raun bar vitni og erum við að núna að fá að njóta afraksturs þeirrar miklu vinnu sem lagt var í fyrir rétt um 10 árum síðan þegar að við spilum glæsilega golfvöllinn okkar, sem er einstakur á landsvísu.  Var Halldóri  fært gullmerki klúbbsins fyrir vel unnin störf.